139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka góða umræðu og þakka málshefjanda sérstaklega.

Hvað kostar að lifa á Íslandi? Mér finnst það eiginlega vera grunnspurningin. Hvað ætlumst við til að einstaklingur geti komist af með? Hvað kostar að eiga fjölskyldu? Hvað kostar að leigja húsnæði? Meðan þessum spurningum er ósvarað komumst við ekki að neinni rökréttri niðurstöðu. Ég er á því að 120 þús. kr. sem almenn grunnframfærsla einstaklings sem þarf að leigja sér húsnæði eða er í eigin húsnæði sé allt of lág tala. Hins vegar hefur einnig verið bent á að einstæðir foreldrar í námi hafi það jafnvel mun betra í námi en í ágætlega borgaðri vinnu. Þetta þarf að skoða því að það er ekki heil brú í þessu kerfi eins og það fúnkerar í raun og veru.

Það verður að vera eitthvert samræmi í því hvað fólk fær í bætur eða námslán, atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða þá framfærslu frá sveitarfélögunum. Það hlýtur að vera hægt að koma sér niður á einhverja tölu. En hvað kostar að lifa á Íslandi? Það er algjörlega út í hött að hér séu engin opinber grunnframfærsluviðmið.

Mig langar aðeins að nota tækifærið og vekja athygli á því fyrirkomulagi að fólk þurfi að taka yfirdráttarlán til að brúa bil þangað til það fær greitt námslán sem er greitt út eftir á. Ég held að við séum þar með að kenna ungu fólki að það sé eðlilegt að vera með yfirdrátt en það er ekkert eðlilegt við það. Þessu þarf líka að breyta.