139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér fer fram um fjárhagslega stöðu háskólanema, stöðu sem við höfum svo sem margoft rætt á umliðnum árum. Það er gömul saga og ný og hefur komið hér fram að stúdentar eru sá hópur í samfélaginu sem hefur aldrei verið ofsæll af kjörum sínum. Það þekkja auðvitað allir sem hafa farið í langskólanám.

Vandinn í dag er kannski fyrst og fremst sá að fjárhagsstaða námsmanna hefur versnað verulega frá hruni. Þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru í ríkisstjórn, sem áður fyrr lofuðu námsmönnum öllu fögru, hafa ekki staðið við loforð sín frá fyrri árum.

Hér hafa námslánin verið nefnd og hinn lági framfærslugrunnur og aðrir þættir þeim tengdir. Ég tel mikilvægt að taka upp það kerfi sem viðhaft hefur verið sem mælir fyrir um að námslán skerðist vegna þeirra tekna sem námsmennirnir þó afla sér.

Það sem er alvarlegt í stöðunni er að ríkisstjórnin hefur gert slæma stöðu námsmanna enn verri en hún var. Ég vil í því sambandi nefna að skattahækkanir koma alveg jafnilla niður á námsmönnum og öðrum. Vöruverð hefur hækkað. Barna-, vaxta- og húsaleigubætur hafa verið skertar og húsaleiga hækkar á sama tíma og svo mætti lengi telja. Allt þetta bitnar auðvitað mjög illa á námsmönnum og jafnvel verr á þeim en öðrum þjóðfélagshópum.

Það sem þarf að gera fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt er að reyna að tryggja stúdentum atvinnu svo þeir geti aflað sér tekna, tryggja þeim (Forseti hringir.) sumarstörf, en umfram allt að haga kerfinu þannig að menntun í landinu verði efld.