139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[15:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og ég þakka jafnframt greinargóðar upplýsingar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í umræðunni um kjör námsmanna.

Margir hafa farið yfir það hér að kjör námsmanna séu slæm og ég ætla ekkert að draga úr því, en ég vil þó benda á að námsmenn eru ákaflega fjölbreyttur hópur þannig að það er mjög erfitt að alhæfa um stöðu námsmanna. Farið hefur verið ágætlega yfir það hvernig barnafólk í námi er að mörgu leyti betur sett en fólk í bótakerfum atvinnuleysistryggingasjóðs eða á framfærslu sveitarfélaga. Einhleypir eru með, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, um 121 þús. kr. á mánuði. Það vita allir að það er enginn ofsæll af þeirri fjárhæð. Það hlýtur t.d. að vera nánast ómögulegt fyrir manneskju með slíka framfærslu að búa ein, hún hlýtur að þurfa að leigja með öðrum. Ég tel að það sé mjög mikils virði að fá niðurstöður úr athugunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að sjá hvar setja þarf fyrir leka ef þeir eru til staðar, sem ég held að við gerum öll ráð fyrir að sé raunin.

Það er eitt sem skiptir mjög miklu máli, því þetta snýst ekki bara um námslánakerfið heldur þurfum við að verja húsaleigubæturnar. Sífellt fleiri rök hníga að því að ekki sé hægt að fara í skerðingar í því kerfi.

Ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að eftirágreiðslur námslána eru til baga. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á væri jákvætt ef við gætum verið með styrki til námsmanna. Það getum við ekki á þessari stundu því að hér hrundi allt og við höfum ekki fjármuni til þess. En fyrsta skrefið gæti verið að kanna hvort við getum afnumið vexti af námslánum og látum verðbótaþáttinn einan og sér duga, sem er ansi ríflegt fyrir ríkissjóð.