139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[15:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka eins og aðrir fyrir ágæta umræðu. Ég get tekið undir með hv. málshefjanda, þetta er nokkuð sem við mættum ræða oftar. Ég get ekki tekið undir að hægt sé að halda því fram að ríkisstjórnin hafi gert stöðu námsmanna verri á sínum tíma. Þar þurfum við að hreinlega líta til þess að atvinnuástand hrundi í kjölfar efnahagshruns þannig að mér finnst það heldur mikil einföldun í ljósi þess sem ég benti á áðan, að grunnframfærslan hefur hækkað um 28% á tveimur árum þótt tekjurnar hafi minnkað vegna erfiðleika við að afla sér sértekna.

Ég vil hins vegar taka undir margt sem komið hefur fram. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi kerfið í heild sinni, sem ég tel að sé mjög mikilvægt. Það er liður í því sem við viljum gera núna í tengslum við endurskoðun laganna, að skoða kerfin hjá nágrannaþjóðum okkar sem hafa haft blöndu af styrkja- og lánakerfi. Þau kerfi tryggja að mörgu leyti betri framfærslu. Þau eru lokaðri á öðrum sviðum en íslenska lánakerfið. Þá vísa ég t.d. til þess hvaða nám telst lánshæft þar sem íslenska kerfið hefur verið mjög opið þegar lánshæft lán er metið, en ef við lítum til að mynda til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar er afmörkunin meiri. Þar er meiri skilvirkni, ef svo má segja, hvað varðar þann tíma sem námsmenn geta tekið lán, en sjálf framfærslan er hærri.

Þá held ég við ættum að velta því fyrir okkur hvaða stefnu ætlum við að taka. Viljum við læra af þessum þjóðum? Af því að margir þingmenn háttvirtir hafa nefnt samtímagreiðslukerfið, þ.e. að fólk þurfi ekki að taka yfirdráttarlán til að fá námslán, þá hafa allar þessar þjóðir notað samtímagreiðslukerfið. Það hefur verið reiknað út gróflega og er unnið að nánari útreikningum á því hvað það mundi kosta okkur að skipta yfir í slíkt kerfi. Það er ljóst að verulegur einskiptiskostnaður yrði af því. Það er nokkuð sem ég hef oft sagt að ég vilji láta reyna á, þ.e. hvað það kostar, og vonandi þegar aðstæður leyfa getum við farið yfir í slíkt kerfi því að ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra að ala fólk upp í yfirdráttarkerfinu.

Ég hef því miður ekki tíma til að fara nánar yfir þau (Forseti hringir.) atriði sem nefnd hafa verið en þakka umræðuna. Ég lít svo á að það sé mikilvægt verkefni að móta stefnu til lengri tíma en líka að tryggja að framfærslugrunnurinn (Forseti hringir.) haldist í hendur við aðrar þær hækkanir sem kunna að verða í kerfinu.