139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni en þetta voru ekki mín orð heldur var ég að lesa upp úr bréfi og fara yfir röksemdir Orkuveitu Reykjavíkur sem búa að baki óskum þeirra um að þessu máli verði frestað. Hér er því ekki um mín orð að ræða enda veit hv. þingmaður að sú er hér stendur var formaður iðnaðarnefndar þegar málið fór í gegn á sínum tíma og studdi það með ráðum og dáð. Ástæðurnar voru margar og einskorðast ekki við þessar ESB-reglur heldur líka það að við töldum þetta skynsamlegt eins og fyrir raforkumarkaðnum var komið á þeim tíma. Þetta snerist ekki bara um Orkuveitu Reykjavíkur heldur líka um þáverandi Hitaveitu Suðurnesja en þá var hún að stórum hluta komin í eigu einkaaðila með auðlindum og dreifiveitu auk framleiðslunnar. Vilji Alþingis var að skipta þessu upp til að tryggja að auðlindirnar og meirihlutaeignarhald á dreifiveitum væru í opinberri eigu og að framleiðsluhlutinn væri þá hafður opnari fyrir einkaeign. Ein af röksemdunum fyrir þessu var að setja skýr mörk á markaðinn.

Varðandi einhver svigrúm þá eru svigrúm til staðar sem byggja á smæð þjóðarinnar og markaðarins. Það eru þættir sem við viljum gjarnan skoða út af ítrekuðum óskum þessa eina fyrirtækis og munum gera það. Eitt dæmi sem ég get nefnt er að ákveðin svigrúm eru fyrir fyrirtæki með notendur undir 100 þúsund og fleira í þeim dúr. Við ætlum að fara yfir þetta. Það breytir því ekki að skoðun mín stendur frá vorinu 2008, að ég telji þetta fyrirkomulag að öllu leyti heppilegt til framtíðar litið.