139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Hann tók af mér ómakið. Þetta er að sjálfsögðu neytendamál sem má alls ekki fresta aftur og aftur. Þetta er ekki eina málið, þau eru fjöldamörg. Þau eru úti um allt. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur hvorki stefnu í þessa átt né aðra í ákveðnum málum, reyndar ekki í þessu að ég tel. Menn eiga að sjálfsögðu að grípa hart inn í og framfylgja lögunum strax og láta orkufyrirtækin skipta greinunum tveim, samkeppnisgreininni og einokunargreininni, þannig að neytandinn geti flúið yfir í önnur orkufyrirtæki sem framleiða orku. Þetta er sterkt neytendamál og heimilum í landinu veitir ekki af því að geta lækkað kostnað með því að nota samkeppnina.