139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í þessu máli er mikilvægt að horfa til hagsmuna neytenda. Það eru vissulega hagsmunir neytenda að ekki verði af þessari frestun. Þess vegna þarf að ræða málið á þeim nótum. Síðan mætti lengi tala um að komið er enn eitt málið þar sem ríkisstjórnin, þessi stefnulausa ríkisstjórn, grípur til þess ráðs að fresta aðgerðum í stað þess að taka af skarið hvert skuli stefnt. Hvers vegna einhenda menn sér ekki í að taka ákvarðanir? Vissulega kom fram áðan að verið væri að skoða málið. En menn hafa verið við stjórnvölinn í bráðum tvö ár, er ekki kominn tími til að gefa út einhverjar ákvarðanir í þessu máli sem öðrum? Það liggur við að maður sé orðinn leiður á því að standa í hverju málinu á fætur öðru og sjá að ríkisstjórnin virðist ekki vera með á hreinu hvað hún ætlaði að gera þegar hún tók við. Þess vegna væri ágætt að ræða málið á þeim nótum.

Ég minni enn og aftur á hagsmuni neytenda. Ég vonast til að hagsmunir þeirra og sjónarmið komist að í nefndinni þegar málið verður rætt þar.