139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gjarnan vilja sjálfstæðismenn koma upp og tala um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Ég vil benda á, virðulegi forseti, það sem ég er að verða við, í þriðja sinn, er bréf frá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem er stærsta fyrirtæki Reykjavíkurborgar í eigu Reykjavíkurborgar. Þessar óskir hafa komið frá stjórnum sem skipt hefur verið út á tímabilinu og hafa óskirnar jafnframt komið frá samflokksmönnum hv. þingmanns. Fyrirtækið þarf tíma til að fara í gegnum sín mál eftir efnahagshrunið. Ég tel að í Reykjavík sé þverpólitísk samstaða um að óska eftir frestun þannig að fyrirtækið geti farið með eðlilegum hætti í gegnum rekstur sinn og gert á honum viðeigandi breytingar án þess að þetta vofi yfir. Þess vegna hef ég sýnt þessu skilning. Ég sýni stjórnvöldum Reykjavíkurborgar skilning núna alveg eins og ég sýndi stjórnvöldum Reykjavíkurborgar skilning þegar samflokksmenn hv. þingmanns komu til mín þegar þeir voru við stjórnvölinn í borginni. Ég tel mikilvægt að þingið verði við þessu þannig að fyrirtækið geti farið í gegnum þetta.

Ég vil líka minna á, af því hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á það áðan, að menn eru að fara í gjaldskrárhækkanir hjá Reykjavíkurborg. Gleymum því ekki að hjá Orkuveitu Reykjavíkur — og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, gleymum því ekki hvers vegna það er. Það er vegna þess að gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur hafa ekki fylgt verðlagi í gegnum árin. Þess vegna rúmast þessi mikla hækkun innan breytinganna sem hafa orðið á gjaldskrá annarra fyrirtækja í landinu. Við skulum ekki gleyma þessari staðreynd. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið réttar ákvarðanir hjá stjórnvöldum Orkuveitu Reykjavíkur í gegnum tíðina að frysta gjaldskrána sem kom síðan á endanum í hausinn á þeim.