139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega kom það til tals. Það er ástæðan fyrir því að ég samþykki að gera þetta og fara þessa leið. Það eru hagsmunir höfuðborgarbúa sem og eigenda fyrirtækisins að fá þennan tíma og svigrúm til að fara í gegnum reksturinn þannig að hægt sé að koma honum á þann kjöl sem best er og skapar mest verðmæti fyrir eigendurna, sem eru borgarbúar og aðrir nærsveitarmenn.

Virðulegi forseti. Það þjónar hagsmunum neytenda. Ég tel að þessi ársfrestun sé ekki til annars fallin en að vinna með fyrirtækinu að því að koma því á kjölinn að það geti tryggt að það skili eigendum sínum sem mestum verðmætum. Það er það sem við erum að gera.

Stefna og stefnuleysi í þessum málaflokki — það kom fram í máli mínu við flutning málsins hver skoðun mín er, líka í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson. Það er engin stefnubreyting frá vorinu 2008 um aðskilnað og rökin að baki aðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisþátta, heldur er eingöngu verið að bregðast við óskum fyrirtækisins um frestun sökum alvarlegrar stöðu í efnahagslífinu og endurskipulagningar fyrirtækisins. Það er það sem er á ferðinni, stefnubreyting hefur ekki átt sér stað.