139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel afskaplega mikilvægt að við fáum nú tækifæri til að ræða þessi lög og sníða af þeim agnúa sem eru augljóslega til mikillar óþurftar og hafa í rauninni reynst þessu góða félagi mjög dýrt. Þá er ég að vísa í frumvarp sem ég var hér með fyrir nokkru og mun flytja breytingartillögur í samræmi við það núna í tengslum við þetta. Ég vek athygli hæstv. ráðherra og nefndarmanna í hv. iðnaðarnefnd á því máli. Í 2. gr. laganna um tilgang fyrirtækisins segir m.a., með leyfi forseta, „sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi“. Þetta ákvæði hefur þetta góða fyrirtæki á ákveðnum tíma nýtt sér í hluti sem eru fullkomlega óskyldir orkurekstri. (Gripið fram í.) Þá er ég að vísa í hluti eins og rekstur net- og fjarskiptafyrirtækja, fiskeldi, risarækjueldi, hörverksmiðju, ljósmyndabanka og sumarbústaðastarfsemi. (Gripið fram í: Risarækju.) Nú hljómar þetta kannski eins og ræða á herrakvöldi en þetta er bara raunveruleikinn undir forustu R-listans. Þá var farið í þetta allt saman. Við náðum að snúa eitthvað af þessu niður á sínum tíma, en þetta hefur kostað fyrirtækið gríðarlegar fjárhæðir. Þetta eru ekki milljónir, þetta eru ekki tugir milljóna, þetta eru milljarðar, jafnvel tugir milljarða.

Það er engin ástæða til að orkufyrirtækin með alla sína sérstöðu hafi leyfi til að fara þessa leið og nýta þannig peninga skattgreiðenda. Ég vil fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því hvort hún sé fylgjandi því að við breytum þessu.