139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki að við í sölum Alþingis eigum að móta eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Sú mótun á að vera í höndum eigendanna sem eru Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög. Ég tel eðlilegt að þau móti sjálf sína eigendastefnu, enda tel ég að mjög freklega væri gengið inn á svið þeirra ef við tækjum í þingsölum pólitískar ákvarðanir um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þegar hún er alfarið í eigu sveitarfélaganna. Ég tel eðlilegt að umræðan fari fram í eigendastefnunefnd í Reykjavíkurborg sem er að marka þessu fyrirtæki eigendastefnu. Ég tel miklu eðlilegra að þar fari fram vönduð umræða um þessa starfsemi en á hinu háa Alþingi.

Við eigum hins vegar að móta stefnu og eigendastefnu um Landsvirkjun. Ég tel mikilvægt að þingið taki virkan þátt í því vegna þess að það er svo sannarlega nokkuð sem ég hef lengi talið að við þyrftum að gera. Svar mitt við þessari spurningu er það að borgar- og sveitarstjórnarpólitík á heima á því stigi en ekki í sölum þingsins. Ég tel að sú umræða sem hv. þingmaður er að koma með hingað eigi ekki að fara fram hér, heldur í formi umræðu um eigendastefnu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu tel ég engu að síður að við eigum að taka ágætisumræðu um það hvar þessi mörk eiga að liggja. Nú verður kosið til stjórnlagaþings næsta laugardag. Við skulum ekki gleyma því að eitt af ákvæðunum sem þar verður fjallað um er hinn sterki stjórnarskrárvarði sjálfsákvörðunarréttur sem sveitarfélögin hafa og mögulega verður því með einhverjum hætti breytt. Við skulum sjá til. Ég vona þó svo sannarlega ekki.