139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti getur hvorki vísað þessu máli til stjórnlagaþingsins né borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta eru lög sem við samþykkjum hér. Ég var með nákvæmlega sömu tillögu um fyrirtækið Landsvirkjun, að við tækjum þar út lögin ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi. Þessi fyrirtæki hafa algjöra sérstöðu og ég held að enginn mæli því mót að þau geta í krafti stærðar sinnar í eðlilegu árferði farið nákvæmlega það sem þau vilja, rutt út samkeppni á hinum ýmsu stöðum og skekkt samkeppnisstöðu í skjóli stöðu sinnar. Það er ekki hægt að vísa þessu á stjórnlagaþingið. Það er bara gersamlega fráleitt. (Iðnrh.: … á forræði sveitarfélaganna.) Hér er um að ræða lög sem við ákveðum.

Hæstv. ráðherra er þingmaður, sömuleiðis hv. þingmaður. Þetta er nákvæmlega eitt af því sem við fjöllum um hér alla daga, kannski ekki alla daga en oft, þ.e. um hlutverk sveitarfélaga, hvað þau mega gera, tekjustofna og annað slíkt. Það hefur ekki hvarflað að neinum hv. þingmanni að segja hér: Þetta kemur mér bara ekkert við, þetta er sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga. Það hvarflar ekki að neinum þingmanni að tala með þeim hætti. Nákvæmlega það sama á við hér, þetta eru lög sem eru samþykkt á Alþingi Íslendinga. Ástæðan fyrir því að fyrirtækið gat farið þessa leið er sú að þingmenn breyttu lögunum, þeir settu fyrir nokkrum árum inn þessa setningu sem ég vil taka út núna. Það var með skelfilegum afleiðingum hægt að fara þá leið sem ég rakti hér í örstuttu máli. Hér geta menn ekki fríað sig ábyrgð. Við þurfum að taka þessa umræðu hér og það verður gert, virðulegi forseti.