139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var einu sinni stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og ég geri ráð fyrir að eitthvað hefði heyrst frá honum ef þingið hefði gefið sér þann tíma sem hér þarf að gefa í þetta mál, sem er eingöngu til áramóta, og stjórnarmeirihluta hans ef þingið hefði tekið sig til og tínt út einstaka atriði og einstaka heimildir fyrir fyrirtækið (Gripið fram í.) á hvers grundvelli það hefur starfað í töluverðan tíma. (Gripið fram í.) Það hefði aldeilis heyrst frá hv. þingmanni ef það hefði verið gert algjörlega samráðslaust eins og hér er lagt til. Ég lýsti því áðan að skoðun mín væri sú að þessi umræða þyrfti að fara fram í eigendastefnunefnd fyrirtækisins sjálfs. Það er fullkomlega eðlilegt.

Virðulegi forseti. Ég verð líka að segja alveg eins og er að hv. þingmaður getur heldur ekki snúið þannig út úr orðum mínum að ég hafi lagt til að þessu máli yrði vísað til stjórnlagaþings og það rætt þar. Ég var að tala um hinn stjórnarskrárvarða rétt og ákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Þetta mál fellur klárlega þar undir. (Gripið fram í: Nei.) Ef þingið markar stefnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og starfsemi hennar er illa komið fyrir okkur. Ég held að hv. þingmaður mundi ekki tala svona ef hann tilheyrði enn þá stjórnarmeirihluta í Reykjavíkurborg, (Gripið fram í.) leggja til að þingið tæki ákvarðanir með þessum hætti, (GÞÞ: Gerirðu …?) virðulegi forseti. Ég er ekki að segja að niðurstaðan verði ekki sú sem hv. þingmaður leggur til, en það eru vinnubrögðin sem hann leggur upp með sem ég er algjörlega andsnúin. Þess vegna er ég ekki tilbúin til að fara þessa leið, virðulegi forseti.