139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög ánægjulegt frumvarp að kröfu Evrópusambandsins um að auka skuli samkeppni og að ekki megi mismuna með ábyrgðum eigenda. Að minnsta kosti einn þeirra er mjög sterkur, Reykjavíkurborg. Það er reyndar ekki rétt sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um að þetta sé hæfilegt ábyrgðargjald. Það stendur í lögunum að það eigi að svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur. Þetta er ekki hæfilegt, heldur er eiginlega jafnt á komið hvort fyrirtækið tekur lán á markaði með eða án eigendaábyrgðar. Ég hugsa að niðurstaðan verði sú að menn muni ekki nenna að fara þann veg að leita eftir ábyrgð eigenda og að eftir nokkur ár verði öll lán til Orkuveitunnar á hennar eigin ábyrgð. Þá sýnist mér koma upp spurningin um þetta eigendaform. Þetta er sameignarfélag þriggja aðila, að mér skilst. Er það þá ekki í rauninni að breytast í einkahlutafélag? Er ekki eðlilegra að ganga leiðina til fulls og kalla þetta opinbert hlutafélag? Þá eru líka ákveðin skilyrði um stjórnarkjör, jafna kynjaskiptingu og aðgang kjörinna fulltrúa að fundum og annað slíkt. Ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar ætti að skoða það að taka þetta upp sem opinbert hlutafélag.

Svo vantar klausuna „sem hann hefur samþykkt“ í 2. mgr. 1. gr. sem ég legg til að nefndin skoði. Hún byrjar svona: „Hver eigandi um sig ber einfalda hlutfallslega fjárhagsábyrgð á lánaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur“ og þar þarf að bæta við: sem hann hefur samþykkt. Annars tekur hann ábyrgð á öllu, líka því sem fyrirtækið tekur annars ábyrgð á.

Ég legg til, frú forseti, að það verði bara sett almennt bann við því að sveitarfélög taki lán.