139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Það er athyglisverð hugmynd hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að gjaldið geti orðið neikvætt. En það mundi náttúrlega eingöngu gerast ef Orkuveita Reykjavíkur sæi sér ekki fært að fá ótryggð lán. Það segir sig eiginlega sjálft að ef lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur væri betra heldur en Reykjavíkurborgar, mundi Orkuveitan fara í ótryggt lán.

Síðan er annað mál að þegar búið verður að koma fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur í lag, laga skuldasamsetninguna og koma skuldunum niður á það stig að fyrirtækið geti vel staðið undir skuldunum, mundi ég frekar vilja eiga í Orkuveitu Reykjavíkur heldur en í Reykjavíkurborg ef Reykjavíkurborg væri hlutafélag. Þá þyrfti náttúrlega að vera búið að leiðrétta hluti sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór yfir áðan, Orkuveitan gæti ekki staðið í fjármálastarfsemi og öðru slíku. Við vitum náttúrlega að ástæðan fyrir fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur er ekki nema að hluta til vegna kreppunnar í kjölfar fjármálahrunsins heldur má einnig rekja til óráðsíunnar sem þar var á tímum R-listans. Safnað var upp skuldum í alls konar hlutum, hvort sem það var rækjueldi eða hörframleiðslu eða einhverju alls ótengdu rekstrinum og þeir hjá Orkuveitunni höfðu ekkert vit á.