139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:20]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Lúganósamninginn um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.

Í frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt að fullgilda af Íslands hálfu samning um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, hinn svokallaða Lúganósamning sem undirritaður var af hálfu íslenska ríkisins þann 30. október 2007 í Lúganó í Sviss. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að samningnum ásamt þeim þremur bókunum sem honum fylgja verði veitt lagagildi hér á landi. Er það gert í þeim tilgangi að unnt sé að beita Lúganósamningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum. Að auki fylgja samningnum níu viðaukar sem teljast óaðskiljanlegur hluti hans. Þeim er hægt að breyta á einfaldari hátt en samningnum sjálfum og bókunum hans. Hafa viðaukarnir m.a. að geyma upplýsingar í tengslum við beitingu samnings, vottorð sem vísað er til í einstökum ákvæðum og yfirlit yfir jafngild tungumál.

Lúganósamningurinn gildir milli Evrópubandalagsins, Danmerkur og EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss og kemur hann í stað eldri Lúganósamnings sem undirritaður var af hálfu Íslands þann 16. september 1988 í Lúganó. Þeim samning var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 68/1995, um Lúganósamninginn, um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

Með fullgildingu Lúganósamningsins frá 2007 er stefnt að frekari samvinnu á sviði dómsmála í alþjóðlegum einkamálum. Samningurinn treystir enn fremur meginreglur forvera síns frá 1988 um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma sem kveðnir eru upp í ríkjum annarra samningsaðila. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir sögu Lúganósamningsins og þeirri endurskoðun sem farið hefur fram á ákvæðum hans.

Rétt er þó að geta þess að Lúganósamningurinn hefur sérstök tengsl við reglugerð ráðs Evrópusambandsins nr. 44/2001, um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem kölluð er Brussel I reglugerðin og samning milli ESB og Danmerkur sem veita gildi ákvæðum Brussel I reglugerðarinnar ásamt síðari breytingum í samskiptum milli ESB-ríkjanna annars vegar og Danmerkur hins vegar. Gildir Brussel I reglugerðin í málum sem varða eingöngu aðildarríki ESB. Samningurinn milli ESB og Danmerkur gildir þegar um er að ræða mál milli aðila í Danmörku annars vegar og aðildarríki ESB hins vegar. Lúganósamningurinn gildir í málum milli aðila í Danmörku eða aðildarríki ESB annars vegar og hins vegar aðila í einhverju þeirra EFTA-ríkja sem aðilar eru að samningnum. Vegna þessara sérstöku tengsla gerir samningurinn kröfu um að dómstólar samningsríkjanna taki réttmætt tillit til dómsúrlausnar hver annars að því er varðar túlkun Lúganósamningsins.

Efnislega er Lúganósamningurinn frá 2007 að miklu leyti í samræmi við Lúganósamninginn frá 1988. Ein veigamesta breytingin með hinum nýja samningi er sú að Evrópusambandið, sem stofnun, er nú aðili að samningnum í stað einstakra aðildarríkja áður. Endurskoðun á efnisákvæðum samningsins beindist einkum að reglum um varnarþing og lögsögu dómstóla yfir neytendasamningum. Aðrar mikilvægar breytingar voru gerðar að því er varðar sérstaka lögsögu í félagarétti, áhrif þess að mál sé rekið í tveimur eða fleiri löndum um sömu kröfu og sameiningu skyldra dómsmála svo og varðandi fullnustu dóma í öðru landi.

Efni Lúganósamningsins er tvíþætt líkt og áður. Annars vegar er um að ræða viðurkenningu á dómum sem kveðnir eru upp í öðrum aðildarríkjum og fullnustu þeirra. Hins vegar er um að ræða samræmdar varnarþingsreglur þannig varnarþing ræðst af tengslum aðila við tiltekið ríki eða sakarefni.

Lúganósamningurinn gildir einungis á sviði einkamála, þar á meðal verslunarmála án tillits til þess hvaða dómstóll fer með það mál. Opinber mál falla ekki undir samninginn. Samningurinn gildir ekki um skattamál, tollamál og stjórnsýslumál. Sérstaklega eru undanskilin mál sem varða persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi og gerhæfi, svo og fjárhagsleg réttindi sem eiga rætur að rekja til hjúskapar eða erfða. Gjaldþrotamál eru enn fremur undanþegin svo og mál í sambandi við nauðasamninga og mál varðandi almannatryggingar og gerðardóma.

Það er meginregla samkvæmt samningnum að menn skuli lögsækja á heimilisvarnarþingi sínu, þ.e. fyrir dómstóli í ríki þar sem þeir eiga heimili. Frá þessari meginreglu er þó að finna undantekningar. Í samningnum er til að mynda að finna sérstakar varnarþingsreglur en með sérstöku varnarþingi er átt við að í nánar tilteknum tilvikum megi lögsækja mann í einu samningsríki þótt hann sé búsettur í öðru samningsríki. Þessi regla byggir a tengslum tiltekins sakarefnis við það ríki þar sem varnarríkið er og getur sóknaraðili að jafnaði valið hvort hann lögsækir varnaraðila á heimilisvarnarþingi eða á sérstöku varnarþingi. Sérreglur gilda um varnarþing í vátryggingamálum, neytendamálum og í vinnusamningum einstaklinga. Er ákvæðunum einkum ætlað að vernda hagsmuni þessara tilteknu hópa. Í sumum tilvikum býður Lúganósamningurinn aðeins upp á eitt tiltekið varnarþing í samningsríki sem skylt er að nota við málshöfðun og er óheimilt að víkja frá því með samningi eða á annan hátt. Á það til að mynda við í málum sem varða réttindi við fasteign eða leigu fasteignar, slík mál skal höfða í ríki þar sem fasteignin er.

Rökin fyrir því að mæla fyrir um sérstök skylduvarnarþing eru þau að sakarefnið telst svo tengt því samningsríki sem varnarþing er í að það væri óæskilegt eða óeðlilegt að dómsvald um það væri í öðru samningsríki.

Loks er aðilum heimilt að gera samninga um varnarþing að nánari skilyrðum uppfylltum. Ef krafa milli sömu aðila er til meðferðar fyrir dómstólum tveggja eða fleiri samningsríkja eða byggð á sömu málsástæðum eða ef skyldar kröfur eru til meðferðar fyrir dómstólum tveggja eða fleiri samningsríkja gilda sérstakar reglur sem koma eiga í veg fyrir að tveir eða fleiri dómar gangi um efni sem ekki fá samrýmst.

Að því er varðar viðurkenningu dóma á milli samningsríkja er meginreglan sú, líkt og í Lúganósamningnum frá 1988, að dómar sem kveðnir eru upp í samningsríki skulu viðurkenndir í öðrum samningsríkjum án nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar. Stundum verða dómar þó ekki viðurkenndir og eru þær málsástæður sem unnt er að setja fram eða nota gegn viðurkenningu dóms sem kveðinn er upp í öðru samningsríki tæmandi taldar í samningnum. Sem dæmi um slíkar ástæður má nefna ef viðurkenning dóms er bersýnilega andstæð allsherjarreglu í því ríki þar sem viðurkenningar er krafist eða ef dómurinn er ósamrýmanlegur dómi sem þegar hefur verið kveðinn upp í máli milli sömu aðila. Sérstaklega er tekið fram í samningnum að dómsúrlausnir annars samningsríkis megi aldrei endurskoða að efni til. Dómi sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki og fullnægja má í því ríki skal fullnægja í öðru samningsríki þegar hann að beiðni rétts aðila hefur verið lýstur fullnustuhæfur þar en með beiðnina skal fara samkvæmt lögum þess ríkis þar sem fullnustu er krafist. Könnun á því hvort dómurinn uppfylli skilyrði um fullnustu samkvæmt samningnum fer þó ekki fram nema varnaraðili beri ákvörðun um fullnustuhæfi undir dóm. Í samningnum er að finna sérstakt ákvæði er fjallar um heimild málsaðila til þess að fá ákvörðun um fullnustuhæfi dóms endurskoðaða eða endurupptekna og þær formreglur sem gilda í slíkum tilvikum.

Ekki hafa mörg mál verið rekin fyrir dómstólum hérlendis á grundvelli samningsins frá því að lög nr. 68/1995, um Lúganósamninginn, voru samþykkt á Alþingi. Samningurinn er engu að síður mikilvægasti fjölþjóðlegi samningurinn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum sem samþykktur hefur verið af hálfu íslenska ríkisins. Almenna réttarfarslöggjöfin hér á landi er fremur fábrotin þegar kemur að ákvæðum um aðfararhæfi dómsúrlausna annarra ríkja, viðurkenningar dómsúrlausna annarra ríkja og um alþjóðlegt varnarþing. Það er því mikilvægt fyrir Ísland að vera aðili að samningi sem þessum.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisákvæðum frumvarpsins og Lúganósamningsins sem það fjallar um og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.