139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[16:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem verið er að ræða er sprottið af því mikla álagi sem núna er á dómstólum í landinu. Það fer ekki á milli mála að brýn þörf er á að fjölga dómurum. Gert er ráð fyrir að dómurum í Hæstarétti sem nú eru níu verði tímabundið fjölgað í tólf. Þó að það sé ekki beinlínis í greinargerð með frumvarpinu má ætla af því sem á undan er sagt að það sé gert til að mæta því mikla álagi sem er fyrir séð og þegar viðvarandi á Hæstarétti.

Nú vitum við hins vegar að innan tíðar verður landsdómur kallaður saman. Þar eiga sæti fimm af reyndustu dómurum í Hæstarétti. Það mun augljóslega hafa verulega röskun í för með sér fyrir starfsemi Hæstaréttar. Ég sé ekki af gögnum þess máls sem liggur fyrir að brugðist sé við því ástandi með þessu frumvarpi, þvert á móti er eingöngu brugðist við fyrirsjáanlegu álagi á Hæstarétti sem er reyndar nú þegar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort þess megi vænta að innan tíðar komi hann með nýtt frumvarp sem feli í sér tímabundna heimild til að fjölga dómurum við Hæstarétt til að bregðast við því ástandi sem skapast þegar landsdómur kemur saman.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál séu rædd í samhengi. Ég geri mér grein fyrir því að mál landsdóms er annars eðlis en það er samt sem áður af sama toga í þeim skilningi að verið er að tala um þörfina á að styrkja stoðir Hæstaréttar. Maður hlýtur að óttast, ef ekki verður brugðist við með því að fjölga dómurum við Hæstarétt í kjölfar skipanar landsdóms, að allt fari í sama far aftur hjá Hæstarétti þrátt fyrir tímabundna fjölgun dómara um þrjá og álagið á dómstólnum muni verða svo mikið að ekki verði við neitt ráðið. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi í hyggju að leggja fram frumvarp sem feli í sér að fjölga (Forseti hringir.) enn frekar tímabundið dómurum við Hæstarétt í ljósi þeirra aðstæðna sem upp koma þegar landsdómur verður kallaður saman.