139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[17:05]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni varðandi þau gögn sem lágu fyrir haustið 2008 sem ég vísaði til í ræðu minni og hef alltaf haldið vel til haga, enda tel ég mjög mikilvægt að við byggjum breytingar á dómskerfinu á mjög ígrundaðri vinnu. Hún hefur farið fram og nánast allt þetta umhverfi er að sameinast um ákveðnar tillögur sem við erum síðan að stíga fyrstu skref til að hrinda í framkvæmd.

Varðandi dómsgjöldin er það ekki svo að þau séu matskennd eða háð duttlungavaldi. Það er kveðið á um þau í aukatekjufjárlögum ríkissjóðs, þar er fjallað um dómsgjöld en þau ráðast af stefnufjárhæðum og fara stighækkandi eftir upphæð þeirra. Það er ekkert matskennt, ekkert duttlungakennt og ekkert ójafnræði fólgið í því. Þetta eru skýrar reglur sem kveðið er á um þannig að þar er hlutlægt mat á ferðinni. Og hvað réttlætið snertir er þar verið að innheimta nokkuð í samræmi við umfang mála, fjárhagslegt umfang þeirra mála sem til umfjöllunar eru.