139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nýta þennan stutta tíma til að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga:

1. Í umræðum um landsdóm fyrr í haust var mikið rætt um það hvort lögin um landsdóm stæðust tímans tönn, væru úrelt eða þyrfti að gera breytingar á þeim. Um það var tekin efnisleg afstaða að ég best veit í þingmannanefndinni um að ekki þyrfti að gera breytingar á lögunum. Telur hæstv. dómsmálaráðherra það ekki skjóta skökku við að breyta lögum þessum nú þegar leikurinn er hafinn, ef svo mætti segja, þegar ferlið er farið af stað?

2. Samkvæmt 15. gr. laga um landsdóm segir að ákærða skuli skipaður verjandi svo fljótt sem verða má. Nú hefur sakborningurinn þurft að standa í stappi við kerfið og deila við dómarann vegna þess að honum hefur ekki verið skipaður verjandi. Hvað finnst hæstv. ráðherra um það?

3. Samkvæmt 13. gr. landsdómslaganna er talað um að Alþingi kjósi mann til að sækja málið af sinni hendi (Forseti hringir.) og annan til vara ef hinn kynni að forfallast. Nú hefur varasaksóknari þegar hafið störf þannig að það er um tvo saksóknara (Forseti hringir.) að ræða. Telur hæstv. ráðherra það standast lög um landsdóm?