139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka allar þrjár spurningar mínar til hæstv. ráðherra vegna þess að hann svaraði þeim ekki. Til að fyrirbyggja allan misskilning var það ekki rannsóknarnefnd Alþingis sem tók þá afstöðu að ekki ætti að breyta lögum um landsdóm, heldur var það þingmannanefndin, níu manna nefndin. Þar er ábyrgð Alþingis mikil vegna þess að það voru nýir þingmenn sem tóku afstöðu til þess hvort breyta þyrfti lögum áður en farið yrði hugsanlega í það ferli. Sú ákvörðun var tekin áður en ákveðið var að ákæra nokkurn mann fyrir landsdómi. Þetta getur hæstv. ráðherra m.a. kynnt sér í ræðum nefndarmanna og atkvæðaskýringum. Ég get farið yfir það á eftir þegar ég fæ til þess tækifæri í ræðu. Málið er þetta, og spurningin — sem ég endurtek og allar þrjár — snýst um það hvort ráðherra telji rétt að breyta lögum í þessu tilfelli eftir að leikurinn er hafinn. Telur hæstv. mannréttindaráðherra það sæma honum sem ráðherra sem á að gæta þess að mannréttindi séu höfð í huga (Forseti hringir.) að þannig sé búið um hnútana og að þannig sé verklag hér?