139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt mergurinn málsins að það er Alþingis að ákveða hvort breyta skuli landsdómslögunum, ákæra skuli fyrrverandi ráðherra o.s.frv. Alþingi hefur fjallað um öll þessi mál og er meira að segja nýbúið að fjalla um þessi mál og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að breyta landsdómslögunum. Samt kemur ráðherrann inn í þingið með frumvarp.

Ég heyri að ráðherranum er illa við að svara þeim spurningum sem hér eru bornar upp, eins og það að verið sé að breyta reglunum eftir á, og vill fá efnislega umræðu um þessi atriði. En það er vegna þess að hann treystir sér ekki til þess að tjá sig um prinsippin og prinsippin eru öll röng. Prinsippið um það að frumkvæði þingsins hefur fram til þessa verið virt. Það var t.d. ekki tillaga dómsmálaráðherra að ákæra fyrrverandi ráðherra til þingsins og koma síðan hingað og segja: Ja, það er síðan ykkar að ákveða hvað þið gerið. Það var ekki tillaga ráðherra. Það var að frumkvæði þingsins og eftir starf sérstakrar nefndar sem fór yfir það mál sem sú ákvörðun var tekin.

Frumkvæðið í þessum málum á að liggja hjá þinginu. Þingið hefur þegar afgreitt það sem ráðherrann er að leggja til og það er allt rangt við það að ráðherrann skuli á þessum tímapunkti koma fram með breytingartillögur. Hann verður einfaldlega að svara fyrir það hvernig hann réttlætir að svona seint sé gripið inn í. Það hefur hann ekki gert og það dugar ekki að segja: Ég eftirlæt ykkur að ákveða þetta. Auðvitað er okkur öllum ljóst að þingið á síðasta orðið í þessum málum.