139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er út af fyrir sig kannski virðingarvert að menn telja sig geta hér í salnum gert gömlum félaga sínum og vini einhvers konar greiða með því að hefja málsvörn þá sem viðkomandi á í vændum fyrir landsdómi. Ég held að það sé samt ekki smekklegt að gera það og ef menn reyna til þess verða þeir að hafa efnislegar ástæður fyrir því.

Ég hlustaði hér á hv. þm. Bjarna Benediktsson og ég hlustaði á andsvör áðan sem flokksfélagar hans háttvirtir höfðu í frammi og í þeim hamagangi heyrði ég ekki ein einustu efnisleg rök. Frumvarpið er sjö greinar fyrir utan gildistökugreinina. Ekki ein einasta grein hefur verið nefnd þó að hér hafi verið hrópað um (SKK: Til dæmis 3. og 5. gr.) að þetta sér grunsamlegt, að frumvarpið sé grunsamlegt, að flutningur ráðherrans sé tortryggilegur.

Hvaða greinar eru það, forseti, (Gripið fram í: 3. og 5. gr.) sem hv. þm. Bjarni Benediktsson telur vera út í hött og fáránlegar? Er það t.d. sú grein að það sé eðlilegt að Kjaradómur ráði kjörum dómara en ekki landsdómurinn sjálfur, Kjaradómur eins og annars staðar er í dómskerfinu og víðar? (BjarnB: Lestu 5. gr.) Eða er það kannski 6. gr., um að það megi fara að nútímaaðferðum með að skrá það sem fram fer í landsdómi? Það er klárt að þessi lög eru frá 1963 og af því að ég var þá ungur drengur vöknuðu í mér ákveðnar tilfinningar þegar ég las í 38. gr. að það sem fram fer eigi að hraðrita og taka upp á talvél. Ég tel nú ekki að það að (Forseti hringir.) uppfæra þessa grein þannig að dómurinn geti starfað að nútímalegum hætti sé einhver sérstök svívirðing við þingið, almenning eða þann sem lendir í því að vera sóttur til saka fyrir þessum dómi.