139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[18:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri ágætt ef hv. þingmaður kæmi hingað upp og tæki af allan vafa um það að hann teldi hafa verið rétt að senda hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fyrir landsdóm og láta hann svara þar til saka, vegna þess að þegar í ljós kom að hvorki Árni Mathiesen né Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mundu þurfa að gera það snerist honum hugur varðandi viðskiptaráðherrann.

Ég var í raun og veru ekki að kalla eftir svari um það atriði sem hv. þingmaður kom inn á heldur um hitt sem laut að forsætisráðherranum. Var þá ekki með sömu rökum rangt að senda hann einan þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi greitt atkvæði með því?

Ef hv. þingmaður sér ekki neitt rangt við það að í fyrsta sinn sem mál fer fyrir landsdóm, og þar er bara eitt mál til meðferðar, eitt mál, að dómstóllinn sem er að fara að dæma í því máli leggi fyrir dómsmálaráðherra tillögu til breytinga á lögum og að um þetta sé haft samráð við ákæruvaldið, saksóknina í málinu, að þessir þrír komi sér saman um texta sem síðan er lagður fyrir Alþingi, þá get ég ekki hjálpað hv. þingmanni við að skilja hvað er rangt við það vegna þess að það æpir svo á mig.

Hér er ekki verið að tala um einhverja almenna breytingu á lögum sem dómstólaráð leggur til. Við erum að tala um að forseti dómsins, sem hefur einungis eitt mál til meðferðar, leggur til að lögin sem gilda um það eina mál og ekkert annað, kannski kemur ekki annað mál þangað næstu 100 ár, hann leggur til breytingar á lögunum og dómsmálaráðherrann og hv. þingmaður sjá ekkert að því heldur strunsa með það hingað inn í þingið, inn í þing sem er þegar búið að taka þetta allt til skoðunar, kalla til sín sérfræðinga og komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki tilefni til að breyta lögunum.