139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum.

92. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Mér er kært að fá að flytja þetta mál á þessum degi og ég fagna hinum mikla áhuga sem þessi máli var sýndur, einkum af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Að vísu er enginn þeirra í salnum en í hliðarsölum eru held ég einir níu. Það veit á gott og ég spái því að um þetta mál takist góð samstaða á þinginu með þessum öfluga stuðningi sem ég veit að það á hjá Sjálfstæðisflokknum. Nú vil ég ekki ræða meira um þann flokk nema í góðu einu, m.a. vegna þess að einn flutningsmanna þessa frumvarps auk mín er sjálfstæðismaðurinn Pétur H. Blöndal sem er af mörgum góðum sjálfstæðismönnum einhver sá allra fremsti. Að auki flytja þetta með mér þau hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Höskuldur Þórhallsson, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason, Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þráinn Bertelsson.

Ég ætla ekki að skýra nákvæmt orðalag við lagagreinarnar sem blasa við öllum þeim sem þær vilja sjá. Ég veit að hv. sjálfstæðismenn sem hér ganga um sali og bíða spenntir í hliðarsölum eftir því að komast að í umræðu um þetta góða mál hafa þegar kynnt sér og tekið eftir þeirri slæmu prentvillu sem er í 1. gr. þar sem orðið bráðabirgða er haft g-laust og með þeim hætti að yrði dæmt sem villa í stafsetningarprófi í skóla. Svona getur þetta orðið, jafnvel á bestu bæjum.

Meiningin með þessu frumvarpi er í sem allra stystu máli sú að hægt sé að endurgreiða mönnum vörugjald af bíl sem breytt hefur verið innan lands þannig að hann notar metan í stað bensíns eða dísilolíu, algerlega eða að einhverjum hluta. Það er auðvitað flutt í framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru í hittiðfyrra í þessum efnum en þá mistókst að gæta þess að hafa með þennan flokk af bílum, þ.e. bíla sem fluttir eru inn sem bensínbílar eða dísilbílar en menn hafa síðan af umhverfisástæðum og kostnaðarástæðum ákveðið að láta breyta í metanbíla. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að bæði flýtir þetta fyrir orkuskiptum í bílaflotanum sem við ræddum einmitt hér í gærdag og að auki getur þetta aukið atvinnu á Íslandi sem ekki er vanþörf á. Ég er ekki að fullyrða að það sé stórkostleg aukning, en núna er ástandið þannig að við horfum á hvert og eitt starf sem ákveðinn áfanga, sem árangur í því atvinnuleysi sem við þurfum að búa við um stundir og linnir vonandi sem fyrst.

Ég held að að þessu loknu lesi ég greinargerðina upp nokkurn veginn óbreytta, enda ágætlega samin. Ég fékk við hana góða aðstoð og ég held að ég hljóti að nefna aðstoðarmann minn og félaga, Dofra Hermannsson, sem er manna fróðastur um þessi efni og starfar reyndar á þessu sviði nú um stundir.

Með lögum sem samþykkt voru 2008 var heimilað að fella niður vörugjöld af innfluttum metanbílum í þeim tilgangi að gera samgöngur umhverfisvænni í samræmi við markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Með lögum nr. 140/2008, um breyting á sömu lögum, var ráðherra veitt tímabundin heimild til að endurgreiða vörugjöld af bílum sem fluttir eru úr landi. Lögin veita hins vegar ekki heimild til að endurgreiða vörugjöld af bensín- og dísilbifreiðum sem breytt er þannig að þær eru knúnar metani eða annarri vistvænni orku. Að því hníga þó öll sömu rök og með framangreindum lagabreytingum en auk þess má nefna að breytingar á bílum sem þegar hafa verið fluttir inn til landsins skapa mikil verðmæti, eins og ég rakti áðan, ný störf og síðast en ekki síst mikilvægan þekkingargrunn. Á ákveðnum sviðum, við breytingu dísilbíla í metanbíla, eru hér unnin tilraunaverkefni í fremstu röð og með því að koma á þeirri skipan sem hér er um rætt gætum við stutt við þau verkefni og komið þeim mönnum sem þau stunda í ákjósanlega samkeppnisstöðu á okkar heimssvæði og jafnvel heiminum öllum.

Samkvæmt greinargerð með þeim lögum sem áður var á minnst var gert ráð fyrir því að meðalupphæð endurgreiðslu vörugjalds yrði um 350 þús. kr., breytileg eftir aldri bíla. Kostnaður við metanbreytingu á meðalstórum fólksbíl er um 450 þús. kr. og borgar sig upp á 30–50 þús. km akstri, breytilegt auðvitað eftir eldsneytiseyðslu. Ljóst er að jafnvel þótt upphæð endurgreiðslu lækki eitthvað vegna hækkandi aldurs bílaflotans yrði hér um að ræða verulega hvatningu fyrir íslenskar fjölskyldur til að nota vistvæna, innlenda orku á bíla sína.

Bráðabirgðaákvæði laganna, sem áður var á minnst, munu nú vera í endurskoðun í fjármálaráðuneytinu en falla úr gildi að óbreyttu. Hér er lagt til að gildistími þeirra ákvæða sem þetta varða sé framlengdur um tvö ár.

Þá er því við að bæta að í umræðunum í gær um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um vörugjald á ökutæki sagði ráðherrann að von væri á frumvarpi frá sér um notaða bíla sem mundi væntanlega gleðja þá sem áhuga hefðu á metanvæðingu og orkuskiptum í flotanum. Ég vona sannarlega að svo sé, en frumvarp mitt kom auðvitað fram áður en það var. Þá aðfinnslu verður að setja fram um leið og vongleðin lýsir af áhugamönnum um fleiri metanbíla að í því frumvarpi sem í gær var mælt fyrir er ekki eingöngu fjallað um nýja bíla, heldur líka hina eldri. Þar er eins og rakið var í þeim umræðum misvægi í metanbílunum á milli nýrra bíla og breyttra bíla í skattheimtunni sem er afar óæskileg og á bæði við um vörugjaldið og bifreiðagjaldið. Það frumvarp sem hér er um að ræða kynni að verða til leiðbeiningar starfsmönnum hæstv. fjármálaráðherra við gerð hins nýja frumvarps en það getur ekki síður orðið til þess að nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd geti brætt þetta frumvarp saman við frumvarpið á þskj. 214, 197. máli sem heitir of löngu nafni til að ég hirði um að lesa það hér.

Um metanvinnslu á Íslandi er ýmislegt að segja og ég fagna þeirri nýju þingsályktunartillögu sem hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir hefur lagt fram með fjölda annarra flutningsmanna. Í greinargerð með henni er farið ágætlega yfir möguleikana sem fyrir hendi eru í metanvinnslunni. Um þá vil ég einungis segja upp úr greinargerð minni og okkar flutningsmanna að í urðunarsvæði Sorpu á Álfsnesi er sagt nægilegt magn af metani til að knýja um 4 þús. fólksbíla á ári sem er ekki lítið ef rétt reynist. Aðeins um 10% af þessu vistvæna innlenda eldsneyti er nú nýtt. Afgangurinn er brenndur til að draga úr skaðsemi metans á lofthjúpinn, en metan er einhver skaðlegasta gróðurhúsalofttegund sem um getur, 21 sinni skaðlegri en koltvísýringur, CO 2 . Fyrir utan Sorpu getum við auðvitað unnið metan úr fleiri urðunarstöðum eins og gert er með góðum árangri víða um heiminn, úr úrgangi frá landbúnaði og matvælaiðnaði. Þetta eru menn farnir að þekkja ágætlega, ekki síst þingmenn úr svokölluðum landsbyggðarkjördæmum, en þetta metan sleppur núna allt óhindrað út í lofthjúp jarðar þannig að hér er í raun um tvöfaldan ágóða að ræða, þ.e. að minnka koltvísýringslosunina og slá á metanlosunina.

Rannsóknir benda til þess að varlega áætlað megi knýja um 35–50 þús. meðalstóra bíla með metani sem hér væri unnið úr lífrænum úrgangi. Reynsla annarra þjóða sýnir að slík vinnsla getur orðið drjúg aukabúgrein í landbúnaði og skapað ný atvinnufæri um land allt.

Bílar sem breytt er í metanknúna bíla geta eftir sem áður nýtt bensín og dísilolíu og því er í raun um tvíorkubíla að ræða, a.m.k. á þessu stigi máls. Koltvísýringsútblástur frá metanbíl er aðeins lítið brot af losun bensínbíls og þar sem metan úr lífrænum úrgangi er kolefnishlutlaust telst ekki verða nein losun við bruna metans. Þá er magn nitursameinda og svifryks langtum minna við bruna metans en bensíns eða dísilolíu.

Algeng koltvísýringslosun frá meðalstórum fólksbíl, miðað við um 15 þús. kílómetra akstur, er um 2,7 tonn. Ef reiknað er með því að 80% aksturs séu á bifreiðum knúnum metani en 20% á bifreiðum knúnum bensíni eða dísilolíu fæst samdráttur sem nemur 2,2 koltvísýringstonnum. Ef notað er metangas sem annars hefði losast í andrúmsloftið, svo sem frá landbúnaði, bætast við 13 tonn koltvísýringsígilda. Árlega getur því breyting á einum meðalstórum bensín- eða dísilolíubíl yfir í metanknúinn bíl dregið úr losun sem nemur rúmlega 15 tonnum koltvísýringsígilda.

Ekinn metankílómetri kostar um 50–60% af eknum bensín- eða dísilkílómetra þannig að kostnaðarhagræðingin er óljós, en algengur eldsneytiskostnaður heimilis er um 300–400 þús. kr. á ári. Með því að auðvelda almenningi að breyta bílum sínum í metanknúna bíla væri hægt að spara heimilunum í landinu umtalsvert fé.

Eins og ég minntist á áðan er þetta alls ekki eina þingmálið á þinginu núna sem miðar í þessa átt. Sem betur fer er loftslagsvandinn að heita má viðurkenndur. Um hann voru miklar deilur fyrir nokkrum árum en þeim má heita lokið og eftir það hafa menn tekið höndum saman um að reyna sem verða má að notfæra sér þá tæknilegu möguleika sem fyrir hendi eru.

Þetta frumvarp, þingsályktunartillagan sem ég minntist á áðan og frumvarp hæstv. fjármálaráðherra frá því í gær fjalla öll sérstaklega um metan. Ég held að það sé rétt að segja að það er ekki vegna þess að flutningsmenn þessara þriggja þingmála, þannig að ég taki mér það bessaleyfi að tala fyrir munn þeirra allra, hafi í sjálfu sér ákveðið að metan sé framtíðarlausnin í þessum efnum. Þær eru margar og það er örugglega best að leyfa eins og hægt er þúsund blómum að spretta í þessu, láta hugvitsmenn, markaðinn og almenning sem fer að sínum hag og sínu viti ráða að einhverju leyti hvað verður úr í þessu máli. Hins vegar er metanið líklegast besti kosturinn næstu árin, ég þori ekki að segja áratugina, vegna þess að framleiðslan er tiltölulega ör og efniviðurinn nægur. Síðan er hægt að koma við dreifingu um allt land og hægt að gera það strax, en það er ekki á sama hátt mögulegt með aðra þá kosti sem í boði eru í þessum efnum.

Sjálfur hef ég töluvert horft á rafmagnsbílana sem eru auðvitað skemmtilegur kostur og þægilegur á margan hátt. Ég hef lent í að aka rafmagnsbíl eins og væntanlega mjög margir hafa gert og það er ákveðin upplifun. Hún er t.d. þannig að það þarf eiginlega að setja bjöllur eða einhvers konar hljóðtæki á bílana til að láta menn vita hvað er á ferðinni. Hávaðinn er sem sé enginn og það þarf að framleiða hann þannig að það er mikil breyting. Ég hef fulla trú á því að a.m.k. ein af framtíðarlausnunum, ef ekki framtíðarlausnin sjálf og þá er ég ekki að tala um ár heldur áratugi, jafnvel í hálfum öldum, sé rafmagnsbílar og það hentar okkur auðvitað ákaflega vel líka í miklu rafmagnsframleiðslulandi. Það er samt mín hyggja og þeirra sem gerst þekkja til að núna beri okkur að horfa fyrst og fremst á metanið, þó þannig að engum öðrum dyrum sé lokað.

Ég óska þess að að lokinni þessari umræðu gangi málið til efnahags- og skattanefndar og fari þar í íhugun ásamt frumvarpi fjármálaráðherra frá því í gær og að sjálfsögðu væntanlegu frumvarpi eða frumvörpum frá honum og öðrum áhugamönnum um þetta efni.