139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Svarið er já. Við höfum verið að vinna að því að koma með viðbótaraðgerðir fyrir skuldug heimili en ég minni hv. þingmann á, af því að hann talar um verkalýðshreyfinguna, að verkalýðshreyfingin, a.m.k. forusta ASÍ, hefur lagst gegn þeim hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram um almenna niðurfærslu á skuldum heimilanna. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Við viljum fara leiðir sem við getum verið sæmilega örugg um að þjóðarbúið þolir, að fjármálakerfið þolir, að efnahagslífið þolir, að ríkissjóður þolir, þannig að við förum ekki aftur í efnahagskollsteypu og setjum fjármálakerfið í hættu. Það mundum við gera með þeim tillögum sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram sem ekki gagnast skuldugustu heimilunum í landinu — og það liggur fyrir í skýrslunni — vegna þess að þó að farið yrði í almenna niðurfærslu þarf líka að fara í viðbótaraðgerðir fyrir skuldugustu heimilin. Þau höfum við sérstaklega verið að skoða með bönkum og lífeyrissjóðum. Það er nokkuð stór hópur. En við skulum líka muna að fyrir hrun voru 16 þúsund heimili í vanskilum, þau eru 22 þúsund núna, 6–7 þúsund fleiri, allt of mörg, en við hljótum að skoða helst vanda þeirra sem mestar hafa skuldirnar. Það höfum við verið að gera gegnum sérstaka skuldaaðlögun, um það ríkir nokkuð góð sátt milli bankanna og okkar hvaða leið væri hægt að fara hvað það varðar. Við erum enn þá að glíma við hvort hægt sé að fara í almenna niðurfærslu hjá yfirskuldsettum heimilum án þess að brjóta jafnræðisregluna. Við viljum ekki vera með miklar afskriftir hjá heimilum sem eiga kannski margar eignir, eru með eina yfirskuldsetta en engin veðbönd á öðrum eignum. Það er ýmislegt sem þarf að skoða í því sambandi.

Síðan erum við líka að skoða stöðu þeirra hópa sem eru allra verst settir og það þurfum við að gera. Það eru heimili sem ekki eiga fyrir framfærslu, hvað þá heldur skuldum (Forseti hringir.) vegna lána og það er góð samstaða um það að ég tel milli bæði lífeyrissjóðanna, bankanna og okkar að fara leið sem gagnast gæti þeim hópi.