139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þær hugmyndir sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir er varða almenna leiðréttingu á lánum hafa t.d. verið með þeim hætti að hægt væri að setja eitthvert þak á upphæðir sem mundu renna til viðkomandi heimila þannig að við höfum ekki verið að mála okkur út í horn í einhverri einni afstöðu í þeim efnum. En ég vil minna hæstv. forsætisráðherra á að 50%, helmingur heimilanna í landinu hefur átt erfitt með að ná endum saman á síðustu 12 mánuðum. Er það ekki almennur vandi í þessu samfélagi?

Við hljótum líka að spyrja að öðru: Hvað kostar það aðgerðaleysi sem við höfum þurft að horfa upp á nú í að verða tvö ár? Hvað hefur það kostað íslenskt samfélag að ríkisstjórnin hefur ekki enn brugðist við með almennum aðgerðum til að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja í landinu? Það hefur valdið því að vanskil hafa verið að aukast og fólk hefur því miður flutt úr landi. Við höfum horft á tíu manns á dag (Forseti hringir.) sem hafa að jafnaði flutt héðan. Við hljótum að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra taki sér nú tak og fari að sýna fram á einhverjar raunverulegar aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækjanna.