139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir gera sér fulla grein fyrir því að fjöldi heimila í landinu á erfitt með að ná endum saman. Við erum ekki bara að vinna að því máli með því að skoða skuldavanda heimilanna, heldur skapa almenna umgjörð í efnahagslífinu sem við höfum verið að gera. Margir vegvísar eru til um að við séum á leið í rétta átt, bæði með verðbólguna sem og eru atvinnuleysistölur lægri en við bjuggumst við. (Gripið fram í: Þannig að fólk …) Ýmislegt í umhverfinu er mjög jákvætt vegna þess að við erum auðvitað að reyna að koma í veg fyrir það, hv. þingmaður, að við þurfum að borga meiri vexti en við stöndum frammi fyrir. (Gripið fram í.) Við erum með 75 milljarða kr. sem við þurfum að borga í vexti sem er ekkert smátt, sem fer langleiðina með að samsvara öllu almannatryggingakerfinu og við viljum ekki borga meiri vexti. Þess vegna erum við að reyna að halda þannig á efnahagslífinu að þess þurfi ekki.

Auðvitað erum við að skoða vanda heimilanna og hvernig (Forseti hringir.) við getum leyst hann. Það hefur verið mitt meginviðfangsefni frá því í haust, og okkar í ríkisstjórninni, og ég vona að það sjái dagsins ljós á næstu dögum — með eða án bankanna. (Gripið fram í.)