139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ný þjóðhagsspá og afgreiðsla fjárlaga.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hagvaxtarspáin í þessari nýju þjóðhagsspá veldur nokkrum vonbrigðum þar sem um er að ræða 1,3 prósentustigum lægri hagvaxtarspá þegar við horfum fram á næsta ár. Þegar við horfum til lengri tíma er þó hagvaxtarspáin sú sem spáð var þannig að við erum að sigla inn í aukinn hagvöxt sem betur fer þótt þetta setji vissulega strik í reikninginn. Ég hygg að þetta geti þýtt að við séum að tala um 5–7 milljarða kr. lægri tekjuáætlun en áformað var. Þó leggst ýmislegt með okkur á móti, það er minna atvinnuleysi og lægri verðbólga sem hefur áhrif til lækkunar á útgjöldum.

Við þurfum að fara yfir hvað þetta þýðir og hvernig við mætum því. Ég get ekki sagt akkúrat á þessu augnabliki hvort þetta gæti þýtt lægri halla en ella. Ef ég man rétt erum við að tala um 3% halla núna á fjárlögum og mér kæmi ekki á óvart þótt hann yrði u.þ.b. 2,5%, en það er alveg langt frá því að forsendur fjárlaga séu í einhverju uppnámi út af þessari breytingu á hagvaxtarspánni. Við erum með ýmsa liði sem við þurfum að skoða á útgjaldahliðinni, sérstaklega sem snúa að heilbrigðisstofnunum sem við erum að skoða. Eins gæti, ef það gengur eftir sem við erum að vinna með varðandi skuldavanda heimilanna, þurft að setja meira í vaxtabætur og við þurfum að sjá hvernig við getum mætt því.

Það er samt ýmislegt sem leggst með okkur að því er varðar efnahagsmálin í heild sinni. Raungengið hefur verið að styrkjast, verðbólgan hjaðnar, við munum sjá verðbólguna fara niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans þegar á næsta ári. (Forseti hringir.) Skuldatryggingarálag er miklu lægra en við bjuggumst við þannig að allt leggst þetta með okkur til að við getum horft sæmilega bjartsýnum augum á framtíðina að því er varðar efnahagsþróunina og að við séum að ná okkur upp úr þeim öldudal sem við höfum verið í.