139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ný þjóðhagsspá og afgreiðsla fjárlaga.

[10:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það kemur á óvart að hæstv. ráðherra segi forsendur fjárlaga ekki í uppnámi þegar hagvaxtarspá fjárlaga gerir ráð fyrir 3,2% vexti en nú horfum við fram á hagspá sem gerir ráð fyrir minna 2% vexti. Það er með ólíkindum að heyra þetta.

Ég tek undir að ýmislegt varðandi ákveðnar stærðir er jákvætt, eins og verðbólguþróun og vaxtastig, en það er mikil óvissa í þessum spám og fjárfesting atvinnuveganna er í sögulegu lágmarki, hefur ekki verið jafnlág allan lýðveldistímann. Ef þeir óvissuþættir sem allir spáaðilar ganga út frá að geti verið mjög miklir ganga eftir erum við að sigla inn í miklu erfiðara ár 2012 en nokkurn tímann 2011. Maður spyr sig í ljósi þeirra frétta sem maður hefur af aðilum á vinnumarkaði sem eru að taka sig saman um að starfa saman að atvinnusköpun og bæta hér lífskjör: (Forseti hringir.) Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja inn í þá vegferð sem aðilar vinnumarkaðarins eru að fara í?