139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra þessar upplýsingar og fagna því mjög að hann skuli sjá fyrir sér verklok þessarar vinnu strax í upphafi vorþings. Ég vona sannarlega að þau muni ekki dragast fram yfir þann tíma.

Eins og ráðherrann benti réttilega á er sala aflaheimildanna frá Flateyri sem ég gerði að umtalsefni nokkurra ára gamalt mál og þingið setti vissulega lög í vor sem eiga að stemma stigu við útstreymi aflaheimilda frá byggðarlögum. Það sem ég var hins vegar að vekja athygli á er að afleiðingar þeirrar sölu sem átti sér stað fyrir nokkrum árum eru núna að koma fram í erfiðleikum fiskvinnslunnar á staðnum. Ég gæti trúað að sömu erfiðleikar séu farnir að bíta í fleiri byggðarlögum um landið þannig að öll rök hníga að því að drífa í að gera þá endurskoðun (Forseti hringir.) sem heitið hefur verið á fiskveiðistjórnarkerfinu og að hún dragist ekki úr hömlu.