139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

kosning til stjórnlagaþings -- fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[11:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að ræða fundarstjórn forseta. Ég er mikill talsmaður þess að jafnræðis sé gætt milli allra flokka en ég hef bent á að okkur er í lófa lagið að breyta þingsköpum og lengja þann ræðutíma. Ég veit t.d. að hæstv. utanríkisráðherra er sammála mér í þeim efnum.

Mig langar líka til þess að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og því sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan um að við þyrftum að tryggja að fatlaðir og blindir hafi jafnan rétt á við aðra þegar kemur að kosningu til stjórnlagaþings.

Það er eitt sem mig langar að vekja athygli á, í þessum kosningum er landið eitt kjördæmi. Það er raunveruleg hætta á því að landsbyggðin muni ekki eiga neina fulltrúa á stjórnlagaþinginu. Það tel ég að mjög alvarlegt og (Forseti hringir.) það er eitthvað sem gleymdist þegar lögin voru sett. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því og við megum ekki láta það gerast að landsbyggðin eigi ekki fulltrúa á stjórnlagaþinginu. (Gripið fram í.)