139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Dragnótaveiðar hafa verið stundaðar við Ísland í yfir 100 ár. Það vill nefnilega brenna við í umræðunni að menn haldi því fram að þessar dragnótaveiðar séu nýtilkomnar og hafi ekki verið stundaðar lengi. Fyrst voru þær stundaðar út af Vestfjörðum, ef heimildir af dönskum sjómönnum eru réttar, þar sem Íslendingar kynntust þessu veiðarfæri og hvernig ætti að nota það.

Sjómenn voru á sínum tíma í upphafi dálítið hrifnir af þessu veiðarfæri vegna þess að þeir vildu meina að þar sem dragnót hefði verið stunduð yfir sumartímann — hún var yfirleitt bara notuð yfir sumartímann — fiskaðist meira á haustin og veturna vegna þess að það væri búið að róta upp í botninum og lífverum sem fiskurinn sótti í á haustin sem skilaði sér síðan í önnur veiðarfæri.

Seinni árin hefur hins vegar verið deilt mikið um skaðsemi dragnótaveiða á grunnslóð, annars vegar varðandi skaðsemi veiðarfærisins á botndýrin, botninn og lífríki sjávarbotns, og hins vegar varðandi það að þessar veiðar hafa skarast á við veiðar á smærri bátum inni á fjörðum sem hafa stundað veiðar á línu og net o.s.frv. og sótt nærmiðin stutt frá sinni heimahöfn. Um þetta hefur verið deilt, þetta veiðarfæri hefur þróast og orðið stærra og meira en áður var.

Það á hins vegar að vera tiltölulega auðvelt að stjórna þessum veiðum þannig að vel fari saman með öðrum veiðarfærum. Það er hægt að gera það með árstíðabundnum svæðalokunum, það er hægt að gera það með skyndilokunum og með því að loka veiðarfærum með tilteknum hætti í ákveðinn tíma á ákveðnum svæðum eins og er gert víðast hvar með flest veiðarfæri hér við land. Aðalatriðið er að þetta sé byggt á haldgóðum rökum fyrst og fremst og í ágætu samstarfi við þá aðila sem þessar veiðar stunda og hagsmunaaðila í sjávarútvegi almennt. Ég þekki samt mína menn það vel (Forseti hringir.) að ég þykist vita að það verður seint sátt um niðurstöðu sem í þessu máli fæst, hver svo sem hún kann að verða á endanum.