139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu orðum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar kemur fram nákvæmlega það sem við þyrftum að vera að ræða hér. Hann sagði að stefna í sjávarútvegi þyrfti að byggjast á tvennu, vísindalegum rökum og samráði við hagsmunaaðila. Hins vegar kom fram hjá hæstv. ráðherra að þessi stefna og þessar ákvarðanir ráðuneytisins og ráðherrans byggðust á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og á stefnumótun Vinstri grænna í hafinu bláa. Hann fjallaði um umhverfisvænar veiðar og umhverfisvæn veiðarfæri án þess að sú skilgreining liggi fyrir. Það er svo mikill asi á þessari blessaðri ríkisstjórn við að breyta öllu fiskveiðistjórnarkerfinu að hún sést ekki fyrir. Því miður hefur afleiðingin orðið sú að það er búið að skapa mikla óvissu sem verður til þess að atvinnu fólks er ógnað víða um land. Afleiðingin er að dregið hefur úr fjárfestingu og það er minni hagvöxtur og það er meira atvinnuleysi í þessari atvinnugrein en þyrfti að vera.

Skoðum aðeins þau vísindalegu rök sem hér hefur verið fjallað um. Í skýrslu sem hefur aðeins verið nefnd hér og fjallaði um áhrif dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði kemur fram, með leyfi forseta:

„Þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á röskun lífríkis af dregnum veiðarfærum er gerð veiðarfæris, hversu oft dregið er yfir svæðið og síðan umhverfisþættir á staðnum (botngerð og dýpi). Áhrifin geta verið mismunandi …

Dragnót hefur verið talin minnst skaðleg af dregnum veiðarfærum, þar sem hún ristir grunnt í botn og er mun léttari en önnur dregin veiðarfæri (Atli G. Atlason 2005). […]

Niðurstöður þessarar rannsóknar leiddu í ljós að áhrif dragnótaveiða á lífríki í innanverðum Skagafirði séu lítil og að öllum líkindum skammvinn.“

Þar sem umhverfisaðstæður og veiðiálag er breytilegt frá einu dragnótarsvæði til annars er ekki hægt að heimfæra þessar niðurstöður á önnur dragnótarsvæði en frekari rannsókna á áhrifum dragnóta (Forseti hringir.) á lífríki botns við Ísland er þörf. Niðurstöður þessarar rannsóknar leiddu ekki í ljós marktæk áhrif dragnótaveiða á lífríki botnsins í innanverðum Skagafirði — sem sagt engin vísindaleg rök.