139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er alltaf svolítið hugsi þegar vísindin eru notuð í málflutningi. Hvað eru vísindaleg rök? Því var vísindalega haldið fram um langt árabil að ekki hefði tekist að sýna fram á skaðsemi reykinga. (Gripið fram í: Ne-ei.) Þessu var haldið fram í nafni vísindanna árum saman þar til menn sneru við blaðinu. Því er haldið fram í nafni vísindanna að ekki hafi verið sýnt fram á nein skaðleg áhrif af neyslu erfðabreyttra matvæla vegna þess að ekki hefur tekist að sýna fram á það enn þá. (Gripið fram í.) Svona er um margt.

Það kemur fram í gögnum þessa máls að vísindalegar rannsóknir á áhrifum þessa tiltekna veiðarfæris á lífríki sjávar eru takmarkaðar og rannsóknaraðilinn sjálfur varar sérstaklega við því að niðurstöður þær sem vitnað er til við rannsóknina í Skagafirði sé ekki hægt að yfirfæra yfir á önnur veiðisvæði jafnvel þó að dregin sé sú ályktun að ekki sé um umtalsverða skaðsemi að ræða.

Ég held að í þessu tilviki eins og öllu borgi sig að láta lífríkið njóta vafans. Ég er ekki komin hér samt til þess beinlínis að réttlæta þá ákvörðun hvar eða hvernig eigi að takmarka dragnótaveiðar. Ég vek aðeins athygli á því að það er ekki verið að leggja dragnótaveiðar af. Það er verið að takmarka þær á tilteknum svæðum á grunnslóð sem er mikilvæg uppeldisstöð fyrir smáfisk og það hefur verið bent á að flatfiskveiði er ekki mikil innan fjarða. Bolfisknum má ná á öðrum miðum utan fjarða þannig að það er ekki eins og að hér stefni í landauðn vegna takmarkana á notkun veiðarfæris sem ýmsar vísbendingar og rökstuddur grunur eru um að geti haft (Forseti hringir.) alvarleg áhrif á uppeldisstöðvar smáfisks.