139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þegar stendur fyrir dyrum að tilfærslan eigi að eiga sér stað um næstu áramót er félagsmálanefnd ekki með neinn annan kost en að afgreiða þetta mál í skyndingu. Það er mjög slæmt og alls ekki í takt við þau vinnubrögð sem við einsettum okkur að afnema þegar við fjölluðum hér um skýrslu þingmannanefndarinnar sem áttu að vera einhvers konar brautryðjendahugmyndir um það hvernig þingið ætlaði að auka virðingu sína og sjálfstæði. Það er nauðsynlegt að halda þessu til haga í umræðunni.

Þá langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann telji að nægjanlegt samráð hafi verið haft við fatlaða sjálfa um það með hvaða hætti þessi tilfærsla á sér stað og hvort það séu ekki einmitt þeir sem njóta þjónustunnar og eiga að njóta hennar sem eiga að hafa mest um það að segja með hvaða hætti þetta fer fram.