139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt að þetta mál þarf að leysa. Í svona málum eru bæði lögmæt sjónarmið og sjónarmið sem manni finnast ekki alveg jafnmerkileg. Lögmæta sjónarmiðið í þessu máli er félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og réttur fólks til að skipa sér í félög, þar á meðal verkalýðsfélög, eftir því sem það kýs. Við yfirfærsluna á fólk ekki að þurfa að sæta því að geta ekki verið áfram í verkalýðsfélaginu sem það hefur verið í fram að því.

Á hinn bóginn er það þannig, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, að það verður að gæta þess að annarlegir hagsmunir ráði ekki. Þess vegna er sú leið farin að kveða á um að þeir sem eru í þessum félögum megi vera þar en aðrir fari inn í bæjarstarfsmannafélögin. Þetta er sanngjörn lausn, hún er eðlileg. Ég held að flestir aðilar málsins séu ósáttir við hana og það sannar fyrir mér að hún sé skynsamleg, að hún feli í sér meðalhóf og taki mið af almannahagsmunum. Það hlýtur alltaf að vera regla okkar.

Það hversu málið kemur seint fram þá held ég að félags- og tryggingamálanefnd hafi haft af því fréttir (Forseti hringir.) hvernig með málið hefur verið farið á undanförnum missirum. Hún hefur getað leitað eftir frekari upplýsingum. Ég sé enga ástæðu til annars en að sú verkmikla nefnd geti unnið þetta mál vel (Forseti hringir.) þó að hún hafi ekki langan tíma.