139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað síðari spurninguna varðar þá er einfalt að svara henni. Það liggur fyrir á hvaða forsendum fjárþörfin verður endurmetin í lok tímabilsins og þá verða sveitarfélögunum færðir tekjustofnar sem ætlað er að standa undir þjónustunni til langframa.

Hvað varðar seinni spurninguna um eftirlitsstofnunina þá gaf ég fyrirheit sem félags- og tryggingamálaráðherra þegar skýrslan um Heyrnleysingjaskólann og misnotkunina þar haustið 2009 kom út, að sett yrði á fót sjálfstæð eftirlitsstofnun með kaupum á velferðarþjónustu þannig að einn og sami aðilinn gæti aldrei aftur séð um að skilgreina þjónustuna, kaupa hana af einhverjum aðilum og hafa eftirlit með henni. Það veldur hættu á hagsmunaárekstrum og veldur því að menn fara að verja eigin verk. Það veldur því að fólkið sem þarf á þjónustunni að halda er berskjaldað fyrir misnotkun og að þjónustan sé ekki innt almennilega af hendi. Það þarf að virða þá grundvallarreglu að skilja þessa þætti að þannig að það er grundvallaratriði að eftirlitsstofnunin verði sjálfstæð, að hún verði utan ráðuneytisins. Þess vegna er (Forseti hringir.) í frumvarpinu gert ráð fyrir því að þetta verði fyrst um sinn inni í ráðuneytinu á meðan komið verði á fót þessari eftirlitsstofnun sem mun hafa eftirlit með kaupum ríkisins á allri velferðarþjónustu og veitingu velferðarþjónustu á vegum sveitarfélaga.