139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir það sem hann vék að í seinni hluta andsvarsins að það er mikilvægt að eftirlitið sé skilvirkt og gagnvirkt. Ég set hins vegar spurningarmerki við þetta, hvort þetta eigi að vera í ráðuneytinu eða ekki. Hæstv. ráðherra benti á ákveðin rök í andsvari sínu en þá vaknar upp spurning í kjölfarið: Hvað er áætlað að verði margir starfsmenn á viðkomandi stofnun?

Hvað fyrri hluta andsvarsins snertir þar sem hæstv. ráðherra svaraði skilmerkilega að það væru skýr ákvæði í samningnum hvernig gengið verði frá því verði kostnaðurinn annaðhvort meiri eða minni fyrir sveitarfélögin við yfirfærsluna, þá fagna ég því sérstaklega. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að ég þekki það af störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður að þetta hefur alla tíð verið með þeim hætti að menn rífast og pexa um það sem hefði átt að vera en síðan kom í ljós að hefði átt að vera öðruvísi. Ég fagna því sérstaklega að núna sé þetta með skilmerkilegum hætti.