139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla ágætlega og skýrlega fyrir málinu. Í sjálfu sér er fagnaðarefni að þetta mál er komið fyrir þingið. Hins vegar er mjög athugavert að við höfum aðeins nokkrar vikur til umráða til að klára málið í gegnum þingið. Eins og fram kom í andsvari mínu við hæstv. ráðherra áðan hefði ég talið heppilegra að málið kæmi fyrr inn í þingið og til félagsmálanefndar sem hefði þá getað haft það til umræðu, athugunar og meðferðar á meðan á fullnaðarvinnslu þess stæði, enda hefur sú nefnd sýnt það og sannað að hún hefur fulla burði til að breyta þingmálum og bæta þau eftir því sem málin vinnast í þinginu.

Nú eru aðeins nokkrir dagar eftir af þinginu fram að áramótum og ekkert annað í boði, að því er mér skilst, en að klára málið fyrir áramót þannig að sú tilfærsla sem fyrirhuguð hefur verið í allnokkur ár megi ganga vel fyrir sig. Við sem sitjum í félagsmálanefnd munum reyna okkar besta enda er um stórt og mikilvægt mál að ræða. Við þá vinnu alla verðum við að hafa það meginsjónarmið í huga að það eru hagsmunir þeirra fötluðu, þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar, sem verða að vera í fyrirrúmi. Við þurfum alltaf að horfa til þess þegar við skoðum þessar miklu breytingar.

Sveitarfélögin í landinu eru mjög áfram um að taka þetta stóra og mikilvæga verkefni að sér. Það er vel að mikill metnaður sé þar á bæ. Að því er mér skilst eru sveitarfélögin búin að vera í óðaönn að undirbúa sig undir þessa breytingu þrátt fyrir að frumvarpið hafi ekki komið fram og þrátt fyrir að samningar varðandi starfsmannamál hafi ekki tekist og komist á hreint fyrr en á síðustu dögum.

Þetta mál á sér allnokkurn aðdraganda. Það hefur verið til umræðu hjá sveitarfélögunum í allnokkur ár. Menn hafa litið á þetta sem mjög spennandi verkefni til að taka yfir vegna þess að það samræmist að mörgu leyti þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita og þeirri þjónustu sem sveitarfélögin vilja taka að sér, þ.e. öldrunarmálin sem hafa verið til umræðu. Nokkur sveitarfélög hafa það verkefni sem reynslusveitarfélög, þar má helst nefna sveitarfélögin Hornafjörð og Vestmannaeyjar og eins sveitarfélögin í Skagafirði. Hefur sú framkvæmd öll tekist ágætlega. Ég veit ekki betur en þjónustuþegar séu ánægðir með þjónustu sveitarfélaganna á þessu sviði og rétt að skoða hvort málefni heilsugæslunnar eigi líka heima þar vegna þess að þá væri hægt að ná ákveðnum samrekstri eins og menn hafa t.d. náð að gera á Hornafirði. Það eru því mörg spennandi verkefni fram undan hjá sveitarfélögunum í þessu efni.

Ég hef haft áhyggjur af einu allt frá því að ég fór að fylgjast með þessu máli sem sveitarstjórnarmaður. Það eru þær væntingar sem hafa verið og byggst upp hjá þjónustuþegum vítt og breitt um landið. Þannig háttar til þar sem ég þekki best til, á Suðurlandi, að fatlaðir einstaklingar og forráðamenn þeirra hafa þurft að leita um langan veg eftir þjónustu. Fatlaðir einstaklingar sem t.d. búa á Hvolsvelli og Hellu þurfa að leita eftir þjónustu á Selfossi og í mjög mörgum tilvikum til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði fyrir foreldra og vinnutapi. Þá horfum við aðallega til barna sem þurfa á stuðningi foreldra sinna að halda. Væntingar þessa fólks eru þær að við tilfærsluna muni þjónustan færast nær — þjónustan verði veitt nær heimilinu og í heimabyggð, það eru kröfurnar sem gerðar verða til sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Þau samlög eða byggðarlög sem verið er að mynda um þjónustu við fatlaða í kringum þetta verkefni munu að sjálfsögðu, eða ég vona það og hvet til þess, leitast við með öllum ráðum að veita þjónustuna að mestu leyti heima fyrir. Þegar sú krafa er gerð að þjónustusvæðin séu stærri, 4.000 eða 10.000 íbúar séu á hverju svæði, vaknar engu að síður sú spurning hvort einhver raunveruleg breyting verði í kjölfar tilfærslunnar á þeirri þjónustu sem veitt er í smærri byggðarlögum á landinu. Það er spurning sem ekki verður svarað nema í fyllingu tímans. En þetta eru þær áhyggjur sem ég hef haft af þessu verkefni og tilfærslunni frá því að það kom fyrst fram.

Það eru skýr endurskoðunarákvæði í samningnum sem sveitarfélögin gerðu við ráðuneytið. Það er ágætt, menn láta þá á það reyna hvernig tekst til og hvort fjármagnið sem fylgir sé nægjanlegt. Það verður að fylgjast vel með því. Ég vonast til að við hér á þingi komum til með að gera það. Vonandi fáum við svör, hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Þau atriði sem maður hefur áhyggjur af tengjast einmitt sérstaklega þeim svæðum þar sem uppbygging þjónustunnar hefur ekki átt sér stað og heimamenn hafa í rauninni spurt: Við hverju eru sveitarfélögin að taka? Það er ekkert hér. Hér er engin þjónusta. Hér er ekki búið að byggja upp neina þekkingu og hér er enginn húsakostur til handa fötluðum. Þetta er stór spurning. Það verður mjög áhugavert í félagsmálanefnd að fylgjast með og fá svör við því hvernig þessum málum verður fyrir komið þannig að raunveruleg breyting verði í kjölfar þessarar tilfærslu, breyting til hins betra, betri þjónusta, vegna þess að það er krafa þjónustuþeganna.

Við þekkjum öll þá skýrslu sem nýlega kom fram varðandi hvaða þjónusta var og er nú þegar veitt af hálfu ríkisins og með hvaða hætti hún fullnægi ákvæðum laga. Það vekur enn og aftur ákveðnar áhyggjur af verkefninu sem sveitarfélögin eiga í raun að taka við. Ég sé hins vegar að náðst hefur samkomulag um fjármagnið sem fylgir, þ.e. viðbótarframlagið, sem á væntanlega að taka á ókunnum og óþekktum kostnaði við tilfærsluna. Tíminn leiðir einfaldlega í ljós hvort það verður fullnægjandi.

Það er ekki hægt að ræða þetta mál án þess að koma aðeins inn á málefni Sólheima sem eru í uppsveitum Árnessýslu. Þar búa einstaklingar sem koma alls staðar að af landinu í góðu samfélagi. Þetta er sérstakt heimili þar sem menn nýta í rauninni alla kosti náttúrunnar og sveitarinnar til þess að eiga gott líf. Við þurfum að standa vörð um Sólheima. Við þurfum að gæta að því að þessi tilfærsla ógni ekki því góða starfi sem þar er unnið. Ég hef fulla trú á að þeir sem geta beitt sér í þeim málaflokki, bæði hæstv. ráðherra og við í félagsmálanefndinni, komi til með að tryggja að svo verði ekki. Það eru hagsmunir okkar allra að Sólheimar lifi þennan tilflutning af. Mig langar að vekja athygli á því að Sólheimar eru ekki einstakir í heiminum. Til eru systurstofnanir úti í Evrópu sem eru fyrirmynd stofnunarinnar. Við getum horft til fyrirmyndanna, hvernig reksturinn og utanumhaldið um þær stofnanir er með tilliti til þess hvernig haldið er utan um málaflokkinn „málefni fatlaðra“ hjá öðrum Evrópuþjóðum og þá sérstaklega Norðurlandaþjóðum.

Þetta eru helstu atriðin sem ég hef fram að færa á þessu stigi máls. Ég vek athygli á því að ég sá þetta frumvarp fyrst fyrir nokkrum klukkustundum þannig að það er varla hægt að halda uppi vitrænni umræðu um það. Ég hef áður gert athugasemdir við hversu seint það er fram komið en lýsi þó yfir fullum vilja til að greiða fyrir því að málið fái góða, vandaða og jafnframt skjóta afgreiðslu í þinginu. Engu að síður ef reynast á því einhverjir slíkir annmarkar að ég telji það þannig úr garði gert að ekki sé hægt að samþykkja það nema til komi miklar breytingar þá áskil ég mér rétt til þess á síðari stigum. Þetta mál verður einfaldlega að hafa sinn gang í nefndinni og í störfum þingsins. Ég vonast til að tilfærsla á málaflokknum eigi eftir að verða okkur öllum til gæfu, bæði sveitarfélögunum, okkur sem hér störfum og ekki síst þeim sem þiggja þjónustuna samkvæmt væntanlegum lögum.