139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. starfandi og um leið fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páli Árnasyni, fyrir þá greinargerð sem hann flutti hér fyrir þessari breytingu á fyrirkomulagi í málefnum fatlaðra. Sagt er að málið sé allt of seint fram komið og það er sannarlega rétt. Það er auðvitað of seint fram komið á þessu þingi því að það er lítill tími til stefnu en um leið mikilvægt að ljúka því. En það er ekki síður rétt vegna þess að hér er á ferðinni breyting sem hefði átt að verða fyrir löngu síðan. Það eru gríðarleg sóknarfæri í að bæta þjónustu við fatlaða með flutningi til sveitarfélaganna en þar er algert lykilatriði að eftir sem áður njóti fatlað fólk sömu réttinda um land allt. Það er þess vegna nauðsynlegt að efla um leið réttargæslu fyrir fatlað fólk og lögbundin réttindi þess þegar þetta skref er stigið. Til að við verðum ekki í þeirri stöðu hér að nokkrum árum liðnum, eins og hefur gerst í sumum nágrannalanda okkar, að fólk verði án þjónustu vegna þess að allt í einu eru miklu fleiri farnir að veita hana, miklu fleiri farnir að bera ábyrgð á henni en við höfum ekki fylgt því eftir með þeirri réttargæslu sem þarf til að tryggja að allir njóti sömu réttinda um land allt. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar menn búa við jafnmörg og -smá sveitarfélög og við gerum á Íslandi. Það er auðvitað það sem kannski ekki síst hefur tafið fyrir því að þetta mikilvæga skref væri stigið, þ.e. smæð sveitarfélaganna. Því er auðvitað mætt hér með því að búa til þessi 8 þúsund íbúa notendasvæði. Það er ekki í fyrsta sinn sem menn ráða fram úr þeim vanda sem allt of mörg smá og veik sveitarfélög á Íslandi skapa með því að búa til einhverja slaufu eins og 8 þúsund notenda svæði til þess að ráða fram úr vandamálinu. Ég held að það eigi að vera okkur mikið umhugsunarefni á Alþingi ef þetta fyrirkomulag færist mjög í vöxt vegna þess að ég tel að það sé strangt til tekið ekki fyllilega lýðræðislegt. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli að það fari saman sem allra oftast og sem allra mest, notendasvæði, þjónustusvæði og lýðræðislega kjörin stjórnvöld.

Ég held að það að forðast að taka nauðsynlegar ákvarðanir um fækkun sveitarfélaga, sameiningu þeirra og stækkun, valdi því að menn séu í æ ríkari mæli að fara út í byggðasamlög og þjónustusvæði og annað slíkt samkrull í opinberri þjónustu sveitarfélaga sem eru einfaldlega of lítil og þyrftu að stækka og það komi í veg fyrir að íbúar í landinu hafi þann beina og milliliðalausa aðgang að kjörnum fulltrúum sem hafi yfir þjónustunni að segja sem við upphaflega ætluðum með skipulagi okkar. Það er einfaldlega lengra að sækja til sveitarstjórnarfulltrúa sem síðan þurfa að sækja áfram til eins fulltrúa af mörgum í stjórn einhvers byggðasamlags, sem sannarlega hefur ekki úrslitavald um niðurstöðu mála, eða til einhverrar skrifstofu fyrir eitthvert þjónustusvæði. Við þurfum að hugsa sveitarstjórnarstigið og þjónustuna, nærþjónustuna, með þeim hætti að þetta séu einingar þar sem lýðræðislega kjörin sveitarstjórn er í nægilega stóru samfélagi til þess að hún valdi einfaldlega þeim verkefnum sem við viljum fela sveitarstjórnunum. Sveitarstjórnirnar eru gríðarlega mikilvægar í opinberri þjónustu. Þær hafa þann kost umfram þá sem hér sitja að þær eru í nánum tengslum við fólkið vítt um landið við hinar daglegu þarfir þess og daglegt líf og eru þess vegna að svo mörgu leyti miklu færari en við hér að taka ákvarðanir um það hvernig eigi að haga nærþjónustu frá degi til dags, í svo miklu betri færum til að bregðast við því og meta þarfirnar vegna nálægðarinnar. En þá verða sveitarstjórnarmenn líka að hafa þjónustuna á sínu færi. Ég held að eftir því sem við flytjum fleiri stór verkefni til sveitarfélaganna verði það æ meira knýjandi að sameina sveitarfélög rösklega og hafa stærð þeirra miklum mun meiri en nú er, enda er alveg ljóst að fjöldi sveitarfélaga í landinu ræður einfaldlega ekki við þau verkefni sem við þingmenn á Alþingi viljum fela sveitarfélögunum og menn reyna því að finna svona krókaleiðir eins og notendasvæði eða byggðasamlög til að ráða fram úr því.

Á síðasta áratug voru skólamálin flutt til sveitarfélaganna og ég tel að það hafi verið gríðarlega mikilvægt skref. Ég held að sveitarfélögin hafi tekið mjög myndarlega á því verkefni og sinnt því af miklum metnaði og staðið fyrir mikilvægri uppbyggingu í þeim málaflokki. Auðvitað binda menn vonir við að sveitarfélögin muni hafa sama metnað í málefnum fatlaðra nú þegar þau taka þar við. Það er rétt sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir nefndi að auðvitað eru ákveðnar væntingar til sveitarfélaganna um að þau muni gera þetta betur, enda hafa þau ýmis tækifæri til þess að nýta betur aðstöðu og mannafla sem í málaflokknum er annars vegar og hins vegar er í félagsþjónustu hjá sveitarfélögunum. Með því að nýta þá fjármuni og þann mannafla sem nú er á tveimur stöðum undir einni og sömu stjórninni væntir maður þess að náist fram hagræðing sem megi síðan njóta sín í betri þjónustu við notendurna. Þá er hins vegar þess að gæta að við erum að flytja málaflokkinn yfir á samdráttartímum, á krepputímum. Þá verðum við auðvitað að fara alveg sérstaklega gætilega í því og þó ekki síst að fylgja því eins fast eftir og okkur er kostur hér í þinginu, annars vegar með því að tryggja lagarammann um réttindi þess fólks sem hér á í hlut, fatlaðs fólks, og hins vegar með því að tryggja öflugt og gott eftirlit með því sem við erum að gera til þess að málaflokkurinn verði ekki meira fyrir barðinu á samdrættinum en við teljum eðlilegt.

Þess vegna er mikilvægt að í frumvarpinu er lögð áhersla á að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra hafi hér lagagildi og aðild Íslands að honum. Það er mikilvægt að við ljúkum í framhaldi af yfirflutningnum fullgildingu þess sáttmála og þeim lagabreytingum sem honum fylgja til að tryggja réttindi fatlaðs fólks um allt land í lögum okkar betur en nú er gert.

Sömuleiðis er mikilvægt að það samráð við sveitarfélögin um þjónustuviðmið og gæðaviðmið sem hæstv. ráðherra nefndi áðan verði ekki aðeins samráð við sveitarfélögin heldur líka samráð við samtök fatlaðra, við notendur þjónustunnar. Ég fagna þeim fyrirætlunum sem fram koma í málinu og því sem komið hefur fram í umræðu þingmanna, þeirri áherslu sem lögð er á áhrif notenda á fyrirkomulag þjónustunnar og gæðakröfur í henni.

Þegar við flytjum þjónustu til sveitarfélaganna er algerlega nauðsynlegt að efla gæðaeftirlit með þjónustunni. Það sýnir sig í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þegar hún er á einum stað og miðstýrð er hún sannarlega ekki fullkomin, það eru mörg vanhöld þar á og ýmsar úrbætur sem þarf að gera. Og í sjálfu sér, þó að við réðumst ekki í þessa breytingu, þyrftum við að auka og efla gæðaeftirlit með þessari þjónustu við núverandi aðstæður en við þurfum þess enn frekar við yfirflutninginn. En það er ekki bara eftirlit með gæðunum sem við þurfum að efla í málefnum fatlaðra, við þurfum líka að efla eftirlit með réttindum fatlaðs fólks. Það er m.a. vegna þess að sumir í þeim hópi sem þurfa þjónustu eiga ekki eins hægt um vik og almennt er að tala máli sínu sjálfir eða setja fram óskir eða gagnrýni eða kröfu og eru þess vegna viðkvæmur hópur sem oft hefur lent undir í þjónustu og oft hefur mátt búa við ýmislegt sem við hefðum sannarlega viljað að þeir hefðu ekki þurft að þola.

Þess vegna er það fagnaðarefni sem hæstv. ráðherra nefndi hér að þeim tillögum sem starfshópur um réttindagæslu og talsmenn fyrir fatlaða skilaði í mars árið 2009 verði fylgt eftir og gerðar að lögum á komandi ári. Ég tel þó að það sé of seint að þau frumvörp eigi að koma fram fyrir árslok 2011 því að við erum að fara í yfirfærsluna núna. Ég tel að þau frumvörp ættu að líta dagsins ljós á vorþinginu því að þótt ekki væri unnt að afgreiða þau á vorþinginu væri mikilvægt að fá þau til kynningar og helst send út til umsagnar þannig að fram hefði farið nokkur umræða um þau áður en farið yrði í þau á haustþingi og reynt að gera þau að lögum. Þar held ég að sé mikilvægt að við horfum til samþættingar í þjónustu við fatlaða eins og hér er verið að gera. Hér er auðvitað verið að færa félagsþjónustu við fatlaða til sveitarfélaganna eins og félagsþjónustu við annað fólk og ég vona við aldraða líka í náinni framtíð. Með sama hætti held ég að við þurfum að huga að réttindagæslunni. Ég held að það verði sífellt áleitnari spurning hvort ekki sé orðin þörf á því, vegna þeirra fjölmörgu alþjóðlegu sáttmála um réttindi fólks sem við erum aðilar að og höfum gerst aðilar að á undanförnum árum og fullgilt og jafnvel lögfest eins og barnasáttmálann, að við höfum hér starfandi þjóðbundna mannaréttindastofnun sem fylgist með því að mannréttindi fólks séu virt og hafi eftirlit ekki með gæðum í þjónustu eða þess háttar, heldur með sjálfum mannréttindunum, réttindum fólks. Ég held að það sé umræða sem vert sé fyrir okkur að taka í tengslum við þetta og í framhaldinu. Um leið og ég vona, eins og ég nefndi áðan, að þjónusta við aldraða fylgi með svipuðum hætti í náinni framtíð, því að það fer langbest á því að sveitarfélögin fari með alla slíka nærþjónustu og hún sé öll á einni hendi. Það væri líka mikilvægt, ef ekki væru hindranir í skipulagi stéttarfélaganna í vegi fyrir því, að einn og sami aðili gæti sem mest annast um ýmsa þjónustu við þá sem félagsþjónustu eru þurfi.

Fyrir utan það að dreifstýringu fylgir nauðsyn þess að efla eftirlit er auðvitað önnur ástæða fyrir því að þjónustan hefur ekki verið flutt og hún er sú að það er þörf á sérþekkingu í þessum málaflokki. Það er þörf á sérþekkingu á einstökum fötlunum og því sem þar fylgir og þeim úrræðum sem í boði eru og hægt er að nýta. Það er erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að koma sér upp sérþekkingu á öllum þeim fjölbreyttu tegundum fötlunar sem á Íslandi finnast. Þess vegna er mikilvægt, um leið og verið er að flytja þjónustuna til sveitarfélaganna með þeim hætti, að ríkisvaldið grípi til gagnráðstafana í þessu með því að efla og styrkja miðlægar þekkingarmiðstöðvar, eins og þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra, fyrir aðra fötlunarhópa til þess að sveitarfélögin í landinu geti leitað sérþekkingar, ráðgjafar og stuðnings um sjaldgæfar fatlanir til að mynda á einn stað þar sem hún hefur verið byggð upp og er fyrir hendi. Það væri auðvitað allt of kostnaðar- og fyrirhafnarsamt fyrir sveitarfélögin ef til þess væri ætlast að slíkt væri gert á hverju og einu notendasvæði.