139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Við erum sammála um að það sé gott að frumvarpið er komið fram og að tryggja þurfi að hagsmunir þjónustuþeganna séu efstir á blaði þegar við fjöllum um þessi málefni.

Mig langar líka til að koma því að að ég tel að á undanförnum árum höfum við síður en svo verið að veita þessum málaflokki of mikla athygli. Það hefur skort á fjárveitingar í þennan málaflokk og það þurfa allir að vera meðvitaðir um það þegar málaflokkurinn flyst yfir til sveitarfélaganna og brýnt að það komi hér fram í umræðunni.

Hv. þingmaður setti fram þær hugmyndir að rétt væri að fækka sveitarfélögum og setja ekki reglur, svona sérlykkjur eins og verið er að gera hér varðandi kröfur um stærð og fjölda íbúa á bak við hverja þjónustueiningu. Mig langar að kalla eftir því að hv. þingmaður fari aðeins yfir þær hugmyndir sem hann hefur varðandi fjölda í sveitarfélögum, hvaða sjónarmið eigi að liggja að baki slíkum ákvörðunum. Er hv. þingmaður að tala um þvingaðar sameiningar, eða valkvæðar sameiningar? Er hv. þingmaður á þeirri skoðun að stærra sé alltaf betra?