139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað skiptir stærðin máli en það er ekki alltaf betra að sveitarfélög séu sem stærst. Það hefur sýnt sig í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið að notendur eru ánægðastir með nærþjónustu sem telur tiltekinn fjölda íbúa og fer ekki yfir tiltekinn fjölda íbúa. Ég minnist þess úr borgarmálunum í Reykjavík sem menn veittu mikla athygli, það var einingin 25 þúsund, þegar menn fóru mikið yfir þá stærð dró mjög úr ánægju notenda, væntanlega vegna þess að þá dregur úr beinum lýðræðislegum áhrifum þeirra á þá þjónustu sem verið er að veita. Það var til að mynda ein af röksemdum fyrir því að hverfaskipta borginni.

Ég vil ekki tala fyrir sérstökum þvingunum í þessu efni. Ég þekki sveitarstjórnarmenn að því að vera málefnalegt og metnaðarfullt fólk sem hljóti að hafa vilja til þess sjálft að laga stærð sveitarfélaganna að þeirri þjónustu og þeim notendasvæðum sem verið er að skapa. Ég er ekki í vafa um að við hv. þingmaður erum sammála um að það er mikilvægt að íbúi geti leitað beint til kjörinna fulltrúa sinna um þá þjónustu sem hann er að fá og það er býsna umhendis ef sú þjónusta er svo í höndunum á einhverju stærra batteríi en hinni kjörnu lýðræðislegu stjórn og þar eru ekki bein áhrif.

Ég kem svo að hinu í síðara svarinu, um þann skort á fjármunum sem verið hefur í málaflokknum.