139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ágætt að hv. þingmaður er ekki að tala hér fyrir þvinguðum sameiningum. Ég tel að þegar við tölum um sameiningu sveitarfélaga sé það að sjálfsögðu eitthvað sem er þarft að ræða og menn víða um land hafa verið að ræða það. Reyndar er stundum verið að skipta um ráðherra í málaflokknum sem skiptir þá stundum líka um skoðun þannig að maður veit ekki alveg hvert stefnir í þessum málaflokki. Þegar horft er til sameiningar sveitarfélaga má ekki gleyma því að horfa líka til þess að um sé að ræða svæði sem eiga eitthvað sameiginlegt. Ég held að það versta sem gerist ef verið er að sameina bara á grundvelli mannfjölda sé þegar sameinuð eru samfélög sem í rauninni eiga ekkert sameiginlegt, ekki líkan atvinnugrunn eða neitt slíkt. Ég held að það sé mjög varhugavert. Þess vegna hafa byggðasamlögin ákveðna kosti en vissulega galla líka sem felast þá í fjarlægð frá stjórnendum samlagsins.

Hæstv. forseti. Ég býð spennt eftir seinna andsvari hv. þingmanns þar sem við ræðum meira um fjárframlögin til málaflokksins sem er gríðarlega brýnt að komi skýrt fram hér í umræðunni.