139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar fjárframlögin í málaflokkinn er auðvitað engum vafa undirorpið að þar þurfum við að gera betur. Ég nefndi það í ræðu minni að við erum því miður að fara í þessa yfirfærslu á samdráttar- og krepputímum og erum ekki í neinum færum til að setja inn þá viðbótarfjármuni sem ég held að við öll vitum að við þurfum þar. Það er einfaldlega þannig í þessum málaflokki að til að mynda í húsnæðismálum er fjölmargt sem er algerlega óviðunandi miðað við þær kröfur sem við gerum í dag og stuðningur m.a. við sjálfstæða búsetu fatlaðs fólks er langt því frá að vera viðunandi. Við höfum bara úr þessari viku ákaflega afhjúpandi dæmi í umfjöllun fjölmiðla um fatlaðan ungan mann á Akureyri og þann skort á úrræðum og nauðsynlegum stuðningi sem er við sjálfstæða búsetu fatlaðra.

Það er líka mikið fagnaðarefni, og það er nú fagnaðarefni sem mér láðist að nefna í ræðu minni og ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér kost á því að taka það upp í andsvari, að hér er lögð áhersla á að það verði tekin skref í notendastýrðri þjónustu. Það er mjög mikilvægt bæði til þess að notendurnir hafi sem mest áhrif á þjónustuna og líka til þess að sjálfræði fatlaðs fólks sé sem allra mest. Við viljum að sjálfsögðu virða sjálfræði þessa hóps eins og allra annarra borgara í samfélaginu en það er hins vegar óhjákvæmilegt að notendastýrð þjónusta verður auðvitað kostnaðarsamari en það að hrúga fólki saman á einn stað og veita stórum hópum sömu þjónustulínuna með miðstýrðum hætti.