139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna frá hv. þm. Arndísi Soffíu Sigurðardóttur. Ég held að það sé einboðið að fulltrúum Sólheima eins og annarra sambærilegra stofnana verði boðið að senda athugasemdir til hv. félags- og tryggingamálanefndar og bjóða þeim á fund nefndarinnar ef þau svo kjósa. Ég eins og fleiri þingmenn geri mér fulla grein fyrir því að stofnanir eins og Sólheimar sem eru reknar á landsvísu en eru staðsettar í sveitarfélagi þar sem vigt þeirra er afar mikil, hafa mikla sérstöðu. Nefndin mun þurfa að taka sérstakt tillit til þessa og ræða við fulltrúa stofnananna eins og ég nefndi áðan þannig að vel fari við flutning málsins.