139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það er gott að hæstv. ráðherra hefur ekki með fastmótaðar hugmyndir eða er fastur í þeirri hugmyndafræði að fara þurfi eftir hausatalningu þegar horft er til skipulags og fjölda sveitarfélaga hér á landi. Það væri áhugavert ef þeir þingmenn sem eru sammála því að við ættum að horfa á þetta með nýjum hætti mundu einfaldlega setjast niður og ræða þessi mál. Ég held að það sé mjög þarft, einnig til að koma umræðunni á aðrar brautir en hún hefur verið föst á undanfarin ár. Ég tel að íbúar sveitarfélaganna vítt og breitt um landið séu komnir með nóg af því að kjósa um sameiningar sem byggjast einvörðungu eða nánast einvörðungu á hausatalningum en ekki á því hvaða hagsmunir í raun og veru liggja að baki og grunngerð samfélagsins. Það er gott að eiga víðsýna menn í mörgum flokkum og gott að hæstv. ráðherra er einn af þeim.