139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans nálgun og hlakka til að heyra seinna andsvar hans. Ég er til í að koma í 8–10 milljarða niðurskurð, það er ekki vandamálið, en mér þætti vænt um að heyra hvar hv. þingmaður mundi bera niður í viðkomandi málaflokka.

Ég er sammála honum að við getum ekki vænst þess að einkaneyslan muni halda uppi eða veita okkur þá viðspyrnu sem við þurfum í efnahagskerfi okkar. Ég held að við hljótum að horfa til þess að við þurfum með einhverjum hætti — og um það held ég að við hv. þingmaður séum sammála — að auka fjárfestingar í hagkerfi okkar. Við þurfum að auðvelda fyrirtækjum að fara að gera áætlanir til framtíðar, að þau hafi lygnan sjó til að sigla eftir, að menn viti hvað framtíðin ber í skauti sér og þori þess vegna að fara að ráðast í fjárfestingar.

Við getum hjálpað til, stjórnmálamenn, með því að flækjast ekki allt of mikið fyrir svo að fyrirtækin í landinu geti aftur farið að fjárfesta, ráða fólk í vinnu og afla meiri tekna. Við hljótum að horfa til aukinna fjárfestinga fyrirtækja með því að endurskipuleggja skuldir þeirra. Við hljótum líka að horfa til þess að geta með einhverjum hætti stutt við erlendar fjárfestingar inn í hagkerfi okkar. Ég tel að meginviðfangsefni stjórnmálamanna næstu vikurnar sé að takast á við það verkefni: Hvernig getum við aukið fjárfestingu í hagkerfi okkar?

Mér þætti vænt um að heyra hvaða skoðanir hv. þingmaður hefur á því og með hvaða hætti við gætum þá best aðstoðað til að fyrirtækin í landinu geti aftur farið að fjárfesta, til að t.d. orkufyrirtækin í landinu geti aftur fengið aðgengi að erlendu lánsfé til þess að þau geti ráðist í fjárfestingar o.s.frv.