139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega umræðu og góða. Frá því að okkur lenti fyrst saman hér eftir að við byrjuðum á þingi, í örsnörpum orðræðum þá, höfum við alltaf getað átt þess kost að eiga góð skoðanaskipti og mér sýnist engin breyting á því og ég fagna því.

Til að gera þetta þokkalega greinargott verður maður oft að draga saman og reyna að ræða þetta í stærri heildum. Fyrst, hvar ég teldi réttast að byrja á að bera niður. Það er að stækka skattstofna ríkisins og til þess tel ég full færi með því í rauninni að breyta um stjórnarstefnu. Ég veit ekki hvort ég á að nefna það hér með þeim orðum, sem þó væri heiðarlegast að gera, að ég teldi réttast að skipta um ríkisstjórn en ég held að það dygði að skipta út þeim áherslum sem vinstri græn hafa í atvinnumálum í ríkisstjórninni og þeim viðhorfum sem vinstri græn hafa gagnvart erlendri fjárfestingu í landinu.

Eitt lítið dæmi, af því að ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um það mál og hefur barist fyrir því að reyna að ná því fram, er fjárfesting í gagnaveri suður með sjó. Ég held að við deilum þeirri skoðun báðir að við skiljum ekki í rauninni hvað veldur því að það mál er ekki komið lengra en raun ber vitni. Ég held að öflugasta efnahagsaðgerðin sem við gætum gripið til í dag væri að skipta út þeim áherslum sem standa í vegi slíkra mála, hvernig svo sem við förum að því. Ég skal tylla mér niður við fyrsta tækifæri með hv. þingmanni. Og af því að hann kallar eftir hugmyndum mínum og tillögum varðandi niðurskurð bendi ég honum á grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum eftir þann sem hér stendur. (MSch: Ég les ekki Moggann. ) Hv. þingmaður bendir mér á það að hann lesi ekki Morgunblaðið. Þá hefur hann ekki efni til þess að fara í þroskaða (Forseti hringir.) umræðu við mig um niðurskurðartillögur í fjárlögum. [Hlátur í þingsal.]