139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka þeim sem hér hafa tekið til máls. Þetta hafa verið góðar og málefnalegar umræður. Ég held að menn séu um margt sammála en áherslur manna eru þó mismunandi. Það var gaman að hlusta á sjálfstæðismenn ræða um mikilvægi Icesave og ég tel að ég þurfi að koma að þeim lið nú strax svo ég verði ekki sakaður um að hafa gleymt því stóra og mikilvæga máli. Ef við hefðum ákveðið að samþykkja þá afarkosti sem voru settir fyrir okkur og þjóðin kaus um værum við að borga á bilinu 36–40 milljarða bara fyrir árið 2010. Þá er ótalið allt árið 2009 vegna þess að til stóð að við mundum borga vexti aftur í tímann og jafnvel umfram skyldu.

Síðan verð ég nú að koma félögum mínum í Vinstri grænum til bjargar. Ég gat ekki skilið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson öðruvísi en að þeir einir stæðu í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ég tek undir að þeir hafa ekki verið sérstaklega þægilegir en bendi á að það var ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem gerði það að verkum að áformin um álver á Bakka á Húsavík voru sett í sameiginlegt mat (Gripið fram í.) Ég held að það verði að koma skýrt fram. Þetta er bara staðreynd, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem ég held að við verðum að ræða (Gripið fram í.) svo heiðarleika sé gætt í umræðunni.

Eins og ég benti á í upphafi umræðunnar fyrir fjárlögin fyrir árið 2010 eru menn einfaldlega ekki öruggir með þær tölur sem þeir bera á borð fyrir þjóðina. Þetta sagði ég í umræðunni fyrir um ári og hér stend ég ári seinna og það hefur komið í ljós að ég hafði rétt fyrir mér. Nú liggur það fyrir að vaxtagjöld eru um 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að heildargjöld A-hluta ríkissjóðs á tímabilinu janúar til ágúst 2010 yrðu 379 milljarðar kr. en raunin varð 354 milljarðar kr. sem er 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins.

Áður en ég held lengra áfram verð ég að taka fram að ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar en ásamt þeim sem hér stendur ritar undir álitið þingmaður Hreyfingarinnar, Þór Saari.

Í fjárlögum 2010 var gert ráð fyrir að vaxtagjöld næmu 94,3 milljörðum kr. en við 2. umræðu um fjáraukalagafrumvarpið er gert ráð fyrir að þau nemi 70,3 milljörðum kr. Þau hafa því lækkað um 24 milljarða kr. Að mati 2. minni hluta er stór hluti af skýringunni ónákvæmni í áætlanagerð fjármálaráðuneytisins, m.a. í minni lántökum en ráð var fyrir gert frá samstarfsþjóðum í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Ég vil taka það skýrt fram að sá sem hér stendur og formaður Framsóknarflokksins börðumst gegn því á sínum tíma að Íslendingar mundu taka öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til að þjóðin mundi taka. Því fagna ég að ríkisstjórnin hefur (TÞH: Hvað með norsku lánin?) ákveðið að taka minni lán frá nágrannaþjóðum, m.a. Noregi, en gert var ráð fyrir. Við börðumst einmitt fyrir því að þetta yrði (Gripið fram í.) sett í lánalínu (Gripið fram í.) og það varð að veruleika. Ég tel því að ríkisstjórnin hafi stigið mjög jákvæð skref í þessum efnum.

Það er fleira sem kemur til en þessar erlendu lántökur eða vextirnir sem við þurfum að greiða af þeim. Einnig komu til uppkaup á erlendum skuldum ríkissjóðs fyrir gjalddaga sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir í áætlunum. Auk þess hefur gengi íslensku krónunnar styrkst og við það lækka erlendar skuldir. Á móti þessum lækkunum koma aukin vaxtagjöld vegna skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út í evrum við kaup á bréfum Avens B.V. Ítarlega hefur verið farið yfir tilurð þess láns í umræðunni svo ég tel óþarfa að gera það hér.

Við fall bankanna kom í ljós að ríkissjóður bar enn ábyrgð á skuldum sem einkabankarnir yfirtóku við einkavæðingu þeirra. Í fjáraukalagafrumvarpinu þarf að hækka fjárheimild Ríkisábyrgðasjóðs um ríflega 1 milljarð kr. vegna afborgana og vaxta lána sem voru með ábyrgð ríkisins í lánasöfnum föllnu bankanna þriggja. Því kemur það mjög á óvart að svo virðist sem milljarðar króna kunni að falla á ríkissjóð vegna þessa. Telur 2. minni hluti mikilvægt að upplýst verði sem fyrst um fjárhæð þeirra heildarkrafna sem ríkissjóður mun yfirtaka vegna þessa en ríkissjóður hefur greitt af lánunum frá því að bankarnir féllu árið 2008. Mun 2. minni hluti fjalla nánar um þessi mál við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki um ríflega 2,5 milljarða kr. frá forsendum fjárlagafrumvarps vegna minna atvinnuleysis en spáð var. Útgjöld vegna lífeyristrygginga hafa reynst mun lægri en áætlað var og liggur skýringin m.a. í betri lífeyrisréttindum en gert var ráð fyrir. Einnig hafa fjármagnstekjur ellilífeyrisþega lækkað greiðslur samkvæmt reglum þar um. Loks má nefna að bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hafa lækkað verulega.

Hvað varðar tekjuhliðina er í fjárlögum 2010 gert ráð fyrir 98,8 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs en við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga 2010 er hallinn kominn niður í 58,1 milljarð kr. og hefur því lækkað um 40,7 milljarða kr. Í fljótu bragði mætti halda að náðst hefði mjög góður árangur í fjármálastjórn ríkisins. Þegar betur er að gáð skýrist allt of stór hluti árangursins af einskiptisaðgerðum. Má þar fyrst nefna Avens-snúninginn svokallaða en í honum felst samkomulag milli Seðlabankans og lífeyrissjóðanna um kaup á íbúðabréfum. Forsaga málsins er í stuttu máli sú að í maí sl. gerði ríkissjóður samkomulag við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á þessum bréfum þar sem að baki voru aðallega íbúðabréf en einnig ríkisbréf og reiðufé. Greiddi ríkissjóður fyrir þessar eignir með skuldabréfi að fjárhæð 401,5 milljónir evra, jafngildi um 64 milljarða kr., auk 35 milljóna evra og 5 milljarða kr. í reiðufé. Með kaupunum tryggði ríkissjóður sér full yfirráð yfir eignum Avens B.V. sem var stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands en krónueignir félagsins námu um fjórðungi allra krónueigna erlendra aðila. Bókfærðar tekjur ríkissjóðs vegna samkomulagsins nema um 17,5 milljörðum kr. Í öðru lagi var ekki gert ráð fyrir sölu sendiherrabústaðar í London að fjárhæð 1,7 milljarðar kr. Alls skila þessar tvær aðgerðir 19,2 milljarða kr. tekjum til ríkissjóðs sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum fjárlaga.

Í þessu sambandi gagnrýnir 2. minni hluti að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að keyptur verði sendiherrabústaður í London fyrir 835 milljónir kr. í stað þess sem seldur var og að til viðhalds hans verði varið milljónum króna. Telur 2. minni hluti að ekki eigi að kaupa nýjan bústað á meðan verið er að skera niður fjárframlög til grunnstoða samfélagsins.

Annar minni hluti lýsir yfir áhyggjum af því að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga og staðgreiðslu hafa lækkað um 5,1 milljarð kr. frá áætlunum fjárlaga. Minnkandi kaupmáttur getur valdið meiri samdrætti í efnahagslífinu en orðið er. Er í þessu sambandi lýst yfir áhyggjum af því hve mikið fjárfesting hefur minnkað eða um 19,3% frá forsendum fjárlaga.

Það er rétt að vekja athygli á því í þessu samhengi að fyrirhugaðar skattahækkanir munu draga kraft úr einstaklingum og fyrirtækjum og gera það að verkum að eftirspurnin verður minni og hagvöxturinn minni. Til að mynda var hagvöxtur minni en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir en helstu frávik eru að fjárfesting hefur minnkað á milli ára um 14,5% en gert var ráð fyrir að hún ykist um 4,8%. Jafnframt lýsi ég því yfir að samdráttur í kaupmætti er áhyggjuefni, því öflugur kaupmáttur er ein af forsendum hagvaxtar.

Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans aukast tekjur um 15,8 milljarða kr. Hefði eignasalan ekki komið fram hefðu tekjur dregist saman um 3,4 milljarða kr. Það sem einkum veldur áhyggjum er að skattar á tekjur og hagnað einstaklinga lækka um 4,7 milljarða kr. frá forsendum fjárlaga þrátt fyrir minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Í máli hv. formanns fjárlaganefndar kom fram að meiri hlutinn telur að góður og mikill agi í ríkisfjármálum hafi náðst og bendir máli sínu til stuðnings á að fjölmargar stofnanir eru nú betur innan marka og ramma fjárlaga heldur en áður hefur verið. Að því leyti vill 2. minni hluti fjárlaganefndar benda á að á undanförnum tveimur áratugum hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt framkvæmd fjárlaga og bent á ýmsa misbresti í fjárlagagerðinni. Hefur stofnunin þannig ítrekað bent á að almennt agaleysi hafi verið í rekstri fjölmargra stofnana, sem og að bindandi fyrirmæli fjárlaga hafa ekki verið virt. Hefur stofnunin því hvatt til þess að ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlaus í gildandi lögum og reglum.

Í skýrslu sinni fyrir fyrstu átta mánuði ársins 2010 gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega að enn fari stofnanir umfram heimildir í rekstri sínum og að enn vanti upp á að rekstraráætlanir stofnana hafi verið samþykktar eða færðar inn í kerfið. 2. minni hluti tekur undir með Ríkisendurskoðun um að gera verði skýlausa kröfu til ráðuneyta að stofnanir sem undir þau heyra séu reknar innan fjárheimilda. Taka þurfi á uppsöfnuðum halla stofnana með afgerandi hætti, annaðhvort með kröfu um samdrátt í rekstri þeirra eða að þær fái nægilegar fjárheimildir. Nýleg dæmi sem upp hafa komið um afleiðingar slælegs eftirlits í einstökum málum eru til vitnisburðar um að efna þarf eftirlit með umsýslu opinbers fjár.

Ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar um aukið eftirlit með þeim fjármunum sem Alþingi úthlutar og eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins og áætlanagerð hefur ekki tekið miklum breytingum síðastliðin tvö ár. Engin lög hafa verið sett til að styrkja eftirlitið utan heimilda sem Ríkisendurskoðun fékk til að afla skýrslna fyrir fjárlaganefnd með lögum nr. 56/2009 og með þingsályktunartillögu frá 11. júní sama ár þar sem Ríkisendurskoðun er heimilt að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar eða leggja fram skýrslu. 2. minni hluti bendir því á að langur vegur er frá því að Alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt með skýrum hætti og þann þátt stjórnkerfisins verður að styrkja.

Annar minni hluti gagnrýnir að ríkisstjórnin virðist ekki fylgja langtímaáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013 sem Alþingi hefur samþykkt. Þar er kveðið á um með hvaða hætti ætlast er til að ríkisstjórnin og þingið vinni. Þar kemur m.a. fram:

„Einstakir ráðherrar geri ekki samkomulag eða gefi yfirlýsingar sem feli í sér útgjaldaskuldbindingar af hálfu ríkisins nema gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir því að í fjárheimildum gildandi fjárlaga og fjármálaráðherra hafi fallist á skuldbindinguna.“

Rík samstaða hefur ríkt um það frá því bankarnir féllu haustið 2008 að auka agann í ríkisfjármálum og auknar heimildir Ríkisendurskoðunar til gagnaöflunar sýna að okkur miðar í rétta átt. Því harmar 2. minni hluti að í fjáraukalagafrumvarpinu komi fram fjölmörg dæmi um að ráðherra geri samkomulag eða gefi út yfirlýsingar sem fela í sér útgjaldaskuldbindingar án þess að gert hafi verið ráð fyrir þeim í fjárheimildum fjárlaga.

Virðulegi forseti. Að því búnu vil ég benda á að vandinn sem Íslendingar glíma við er mikill. Við horfum upp á að vaxtakostnaður hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Hann er þó minni en áður var talið. Það er erfitt í sjálfu sér að henda reiður á af hverju það stafar. Upplýsingar vantar um tilgang lánanna, í hvað þeim er ætlað að fara og hvort Seðlabankinn eða ríkissjóður taki þessi lán. Eitthvað af þeim fer í að mæta hallanum. Um það er ekki deilt. Einhver hluti fer í að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Við horfum samt fram á það vandamál að inni í hagkerfinu liggja um 600 milljarðar, eftir því sem ég best veit, í svokölluðum krónubréfum. Fjármunir sem bíða í rauninni eftir því að við tökum gjaldeyrishöftin af. Ég held að því miður sé staðan einfaldlega þannig að við verðum að hafa gjaldeyrishöftin til þó nokkurrar framtíðar vegna þess að okkur hefur í rauninni ekki tekist að búa til hagvöxt og fá meiri tekjur inn í samfélagið til að standa undir þeim greiðslum. Þá hefur ríkisstjórnin því miður ekki gert nógu mikinn reka í að ná samkomulagi við þessa aðila en á það benti ég strax í kjölfar bankahrunsins að það væri mjög mikilvægt að gera.

Þegar við ræddum þessa stöðu fyrir um ári síðan benti ég á að skuldastaða þjóðarinnar væri mikið áhyggjuefni. Ég ræddi Icesave og þær skuldir sem þá stóð til að leggja á heimilin og unga fólkið okkar í framtíðinni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nefndi í skýrslu sinni á þeim tíma að hann teldi að erlendar skuldir Íslendinga hefðu verið um 300% af vergri þjóðarframleiðslu. Ég benti á það þá og geri nú að við þurfum að ræða þessa skuldastöðu og taka hana alvarlega. Við skulum minnast orða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nefndi á sínum tíma að ef skuldahlutfallið færi yfir 240% teldi hann að staða þjóða væri einfaldlega þannig að þær væru hugsanlega tæknilega gjaldþrota.

Þegar menn líta til sjálfbærni skuldastöðunnar verða menn einnig að horfa til verðmætis útflutnings, innflutnings, lánskjara erlendra lána og ávöxtunar erlendra eigna Íslendinga. Okkur hefur því miður ekki tekist að skapa nægilegan gjaldeyri til að mæta vöxtum og afborgunum. Fyrst okkur tekst það ekki held ég að það blasi við að ríkisstjórnin verður að leita einhverra leiða til að mæta þessum vöxtum og afborgunum.

Ég vona að sú leið verði ekki farin að taka aukin lán eða selja eignir. Ég vona að ríkisstjórnin breyti í stefnu, t.d. í efnahagsmálum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að auka fiskveiðikvóta, að koma í gang framkvæmdum, álversframkvæmdum, annars vegar á Bakka við Húsavík og hins vegar í Helguvík á suðvesturhorninu. Um leið getum við skapað tekjur þannig að við horfum ekki upp á það í framtíðinni að þurfa að greiða þessa gríðarlegu vexti sem eru í rauninni stór hluti af þeim niðurskurði sem við glímum við í dag.

Að lokum vil ég þó benda á að fjárlagafrumvarpið sem við fjöllum um hér, þ.e. fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 og líka fjárlagafrumvarpið fyrir 2011 sem við munum ræða eftir tvær vikur, þau byggjast bæði í rauninni á röngum tölum. Til að mynda var fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011 byggt á hagtölum frá því í júní sem miðuðu við 3,2% hagvöxt. Nú hefur OECD og ný spá frá Hagstofunni leitt í ljós að hagvöxturinn verður undir 2%. OECD segir að hann verði eitthvað í kringum 1,5%. Þetta þýðir í rauninni að tekjur hafa verið ofmetnar hér á landi um 15 milljarða eða svo. Það mun væntanlega leiða af sér að atvinnuleysi verður meira sem er gríðarlegt áhyggjuefni að mínu mati. Ég bendi á að það kemur hvergi fram í tillögum ríkisstjórnarinnar, hvorki í núverandi fjáraukalögum né í fjárlögum, að það eigi að ráða bót á því atvinnuleysi. Það er í rauninni gert ráð fyrir því að atvinnuleysistölurnar verði áfram svipaðar og þær hafa verið. En ef við tökum mið af nýju hagvaxtarspánum held ég að við verðum því miður að horfast í augu við að atvinnuleysi muni aukast. Það þýðir einfaldlega meiri útgjöld fyrir ríkissjóð sem síðan leiðir af sér meiri niðurskurð.

Svo ég dragi þetta saman tel ég að við verðum að fara þá braut að sækja meiri tekjur. Við verðum að taka á skuldavanda heimilanna. Ef okkur tekst það, ef við komumst upp úr þeim hjólförum sem ríkisstjórnin hefur verið í, í rauninni alveg frá því hún tók til starfa, getum við komið okkur út úr vandanum. Það verður því miður ekki gert með þeirri stefnu sem við höfum horft upp á að undanförnu.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið góð og málefnaleg. Það eru fjölmörg mál sem við munum taka á inni í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. og skila svo af okkur fyrir 3. umræðu.