139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri það á hv. þingmanni að hann er meðvitaður um að vægar þurfi að ganga fram gagnvart fjölskyldunum í landinu. Mér finnst hins vegar öll teikn vera á lofti um að við séum að fara of harkalega fram, t.d. gegn ellilífeyris- og örorkuþegum.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að mikill árangur hefði náðst. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og ætla ekki að gera lítið úr 40 milljarða viðsnúningi. Við ætluðum að reka ríkissjóð með 98 milljarða halla og förum niður í 58 milljarða. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni, sem var mjög fínt, að það eru í raun og veru tvær aðgerðir eða tveir liðir sem gera það að verkum að við náum þessum mikla bata. Í fyrsta lagi er það sala eigna og hið svokallaða Avens-samkomulag og síðan lækkun vaxtagjalda. Ég lít á svo, virðulegi forseti, að þetta séu einskiptisaðgerðir. Hefðu þær ekki komið til væri hallinn á ríkissjóði kominn yfir 100 milljarða.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að ná tökum á útgjöldum ríkisins, gera ríkissjóð sjálfbæran. Það er verkefni númer eitt og númer tvö og númer þrjú. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það í þessum sal — af því ég sé nú að það er ekki mikill áhugi hjá þingmönnum að taka þátt í umræðunni, hér eru einungis fjórir, fimm þingmenn í salnum — þegar við erum að takast á við framhaldið, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Árið 2012 og 2013 þurfum við hugsanlega að skera jafnvel enn frekar niður þannig að við verðum að vera meðvituð um verkefnið og megum ekki að hlaupa undan því á harðahlaupum. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum tökum á halla ríkissjóðs.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði til viðbótar að samstaðan og samstarfið inni í hv. fjárlaganefnd er mjög gott. Við getum örugglega verið í 95% tilfella sammála um að við þurfum að efla og styrkja það samstarf enn frekar því verkefnið er jú velferð landsins og það er okkar allra að sinna því.